144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

makrílfrumvarpið og auðlindaákvæði.

[10:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er kærkomið tækifæri til að leysa úr þeim misskilningi sem þingmenn hafa hlaupið hér fram með á síðustu dögum um það gildissvið sem frumvarpið hefur. Frumvarpið er sérlög um úthlutun á makríl, en hin almenna löggjöf um stjórn fiskveiða gildir á öllum sviðum. Þannig gilda efnisákvæði frumvarpsins um hlutdeildarsetningu makríls og útfærslu hlutdeildarsetningarinnar, en skýrt er tekið fram í frumvarpinu að ákvæði annarra laga á sviði fiskveiðistjórnar, svo sem ákvæði laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og einnig lög nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, gilda um stjórn veiða á makrílstofninum eftir því sem við getur átt og ákvæðum frumvarpsins sleppir.

Það er því alveg skýrt að 1. gr. laga um stjórn fiskveiða gildir um eftir sem áður. Við erum að hlutdeildarsetja makrílinn og setja hann inn í nýtt lagaumhverfi, það er alveg skýrt. Það einasta sem sagt er og sem sagt er almennt þegar sérlög eru sett, og ég veit að þingmenn þekkja það mjög vel, er að þegar sérlög fara að einhverju leyti í bága við það sem þau fjalla um, þ.e. hlutdeildarsetninguna, gilda sérlögin en ekki hin almennu lög ef það leikur einhver vafi á því. Ég held reyndar að það leiki enginn vafi á því, en þetta er almennt ákvæði sem sett er inn.

Það er hins vegar ekki rétt hjá hv. þingmanni sem heldur því hér fram að kvótakerfið sé með einhvers konar gjafakvóta. Þegar hér var verið að veiða langt umfram heimildir og getu stofnanna til að standa undir sjálfbærum vexti og allt of mörg skip og allir voru á hausnum, vildi enginn þingmaður í neinum flokki að ríkið tæki það á sig og keypti heimildirnar og hefði fyrirkomulagið með einhverjum öðrum hætti. Menn sögðu: Sjáið þið um þetta í útgerðinni. Þeir gerðu það, þeir höfðu veitt í áratugi og árhundruð og héldu því áfram. Og núna, þegar vel gengur, þá koma ýmsir fram og segja: (Forseti hringir.) Ja, nú vil ég, nú vil ég.

Það er einfaldlega rangt að tala um gjafakvóta en fyrst við tölum um hann má nefna þá reglu við þá sem (Forseti hringir.) … við höfðum við að deila út gæðum makrílsins. (Forseti hringir.) … gjafakvóta.