144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

lagning sæstrengs til Evrópu.

[10:51]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður er ötull áhugamaður um það ágæta verkefni sem hér er lögð fram fyrirspurn um. Þar sem hv. fyrirspyrjandi vísar í álit atvinnuveganefndar er mér bæði ljúft og skylt að upplýsa hv. þingmann um að einmitt í kjölfarið á áliti atvinnuveganefndar hefur ráðuneytið unnið markvisst að þessu máli með þeirri leiðsögn sem þar kom fram. Við höfum ýtt úr vör átta skilgreindum verkefnum sem beinlínis voru listuð upp í nefndarálitinu og nú síðast var boðið út stærsta verkefnið sem er ítarleg kostnaðar- og ábatagreining vegna áhrifa sæstrengs. Lægsta tilboði var tekið og er sú vinna hafin.

Varðandi samskipti við Breta þá hef ég átt einn fund með Michael Fallon, þáverandi orkumálaráðherra Breta, í mars í fyrra. Ég hef átt í bréfasamskiptum við núverandi ráðherra nýverið þar sem hann hefur boðið fram, og það sama kom fram í samskiptum mínum við þáverandi ráðherra, aðstoð breska stjórnkerfisins við að kynna það breska regluverk sem undir er í þessu samhengi. Við höfum þegið þá ráðgjöf og þau samskipti eru í góðu formi á milli míns ráðuneytis og þess ráðuneytis. Ekki hefur verið farið fram á neinar formlegar samningaviðræður við Breta, enda hef ég sagt og segi enn að það er ótímabært. Þingmaðurinn sjálfur var með ákveðnar hugmyndir í fyrirspurn sinni um verð sem menn hafa kastað fram. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við þurfum fyrst að gera það upp við okkur hvað það er sem við (Forseti hringir.) viljum með því að fá fram allar upplýsingar um þetta verkefni. Það mun verða öðrum hvorum megin við áramótin sem þessum skýrslum lýkur.