144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

úthlutun makríls.

[11:01]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Er ráðherrann þá að segja að vegna þess að við höfum haft gjafakvótakerfi og að úthluta hefði átt að þessari nýju tegund í því gjafakvótakerfi séu menn komnir með það miklar væntingar um að þeir eigi að fá gefins kvóta að ekkert sé hægt að gera í því? Nei, það hlýtur að vera eitthvað mjög einkennilegt við það.

Við erum löggjafinn. Ókei, menn geta hafa haft lögmætar væntingar. Það er meira að segja mjög ríflegt ef menn geta fengið að fjárfesta til að skapa sér samkeppnisstöðu við að veiða nýja fisktegund og fá þá forgjöf og fá þær fjárfestingar endurgreiddar, þ.e. að við það að skapa sér samkeppnisstöðuna fái þeir bara endurgreitt frá ríkinu. Þá væri kannski hægt að koma til móts við þá sem fengu að veiða og fjárfestu í tengslum við það, á grundvelli þess að menn hefðu fjárfest, en það væri tímabundið. Það væri hægt að segja að væri sanngjarnt, en það kerfi sem verið er að reyna að innleiða núna býður upp annað, það tekur sex ár að segja þessu upp, (Forseti hringir.) sem þýðir að það er pólitískur ómöguleiki að hrinda þessu kerfi úr sessi þegar það er komið á. Það er með makríl, svo munu menn færa sig upp á skaftið og innleiða það hægt og rólega í hitt kerfið því að það er svo svakalega gott. Sjáið allan stöðugleikann.