144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

stytting náms til stúdentsprófs.

[11:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Fyrst vil ég segja að þegar kjarasamningar voru gerðir síðast við framhaldsskólakennara þar sem laun framhaldsskólakennara hækkuðu umtalsvert hafði ég lýst því yfir að forsenda þess að hægt væri að ráðast í slíkar kauphækkanir væri meðal annars kerfisbreytingar í framhaldsskólakerfinu. Þá lá fyrir að átt væri við að horfið væri frá fjögurra ára kerfi og farið til þriggja ára kerfis. Í þeim kjarasamningum voru gerðar breytingar sem auðvelduðu slíkar breytingar á framhaldsskólakerfinu, m.a. með því að skólaárið var lengt og afnumin skil á milli prófa á kennslutíma. Sú stefna sem ég vinn eftir hefur legið fyrir um langa hríð. Hún er reyndar ekkert ólík þeim stefnuatriðum eða áherslum sem koma fram hjá BHM, í menntastefnu þeirra samtaka, sem snúa einmitt að því að stytta námstímann að stúdentsprófi. Það er mikilvægt kjaraatriði fyrir menntafólk í landinu.

Hvað varðar val og fjölbreytileika þá er nú þegar hægt að skoða muninn á skólum sem eru þriggja ára skólar, t.d. Kvennaskólanum og Tröllaskagaskólanum. Báðir bjóða upp á þriggja ára nám en eru mjög ólíkir, rétt eins og skólinn í Mosfellsbæ er ólíkur þessum tveimur skólum, rétt eins og skólinn uppi í Borgarnesi er ólíkur þessum skólum. Allt eru þetta þó þriggja ára skólar. Auðvitað verður áfram bæði val og fjölbreytileiki í íslenska framhaldsskólakerfinu, rétt eins og það er í öllum öðrum löndum sem byggja á slíku námskerfi. Það er ekki svo að eina landið þar sem boðið er upp á fjölbreytileika sé á Íslandi vegna þess að hér sé fjögurra ára kerfi. En munum það að núverandi kerfi hefur skilað þeim árangri að við Íslendingar sitjum kirfilega á botninum þegar kemur að námsframvindu (Forseti hringir.) og brotthvarfi. Það er ástæða til að breyta núverandi kerfi.