144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

stytting náms til stúdentsprófs.

[11:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Í sjálfu sér hlýtur að blasa við öllum að það er verið að auka einsleitni í kerfinu með því að hverfa frá þeim möguleika að bjóða upp á fjögurra ára nám til stúdentsprófs. Þar með er verið að auka einsleitni í kerfinu og draga úr vali. Að halda öðru fram er útúrsnúningur.

Því spyr ég: Hvað er það sem ráðherra óttast í því að leyfa Menntaskólanum í Reykjavík að halda sig við fjögurra ára nám til stúdentsprófs? Menntaskólinn í Reykjavík hefur ítrekað óskað eftir því með rökstuddum hætti að fá undanþágu frá tilskipun ráðherra um styttingu. Ég spyr hvort ráðherra sé fáanlegur til þess í nafni fjölbreytileika, vals og sveigjanleika, sem ég hélt að væri tónlist í eyrum hæstv. ráðherra, að koma til móts við óskir Menntaskólans í Reykjavík þar um.