144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

fjarskiptamál.

[11:27]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli og ekki síður fyrir samstarfið í umræddum starfshóp. Það var ánægjulegt að vinna með hv. þingmanni að þessu mjög svo spennandi verki og þótt það hafi tekið um ár að skila af okkur þeirri vinnu sem okkur var falin ber þessi skýrsla þess merki að mikil vinna liggur að baki. Einnig vil ég þakka nokkrum embættismönnum sem unnu óeigingjarnt starf, og að öðrum ólöstuðum vil ég nefna sérstaklega umsjónarmann fjarskiptasjóðs, Ottó Winther, Sigurberg Björnsson hjá innanríkisráðuneytinu, Hrafnkel V. Gíslason hjá Póst- og fjarskiptastofnun, að ógleymdum þeim ráðherrum sem að málinu koma.

Þessi vinna mín með embættismönnunum gefur mér nýja sýn á embættismannakerfið sem oft er mikið umdeilt. Þessi metnaðarfulla skýrsla sýnir hvernig hægt er að virkja þá þekkingu og mannauð sem fyrir hendi er í kerfinu ef markmið og vilji stjórnvalda er skýr eins og hann hefur verið hjá þessari ríkisstjórn og skilar sér inn í störf þessa starfshóps. Að komin sé gróf kostnaðaráætlun á nánast hvern einasta sveitabæ á landinu er meira en við gerðum okkur vonir um í upphafi ferðar, og ekki bara það heldur raunhæf tillaga um að klára það verk árið 2020 í samstarfi við sveitarfélögin í landinu.

Sérstaklega er ánægjulegt hvað sveitarstjórnarmenn taka jákvætt í tillögurnar þó að einhver kostnaður og fyrirhöfn gætu lent á sveitarfélögunum. Allir gera sér grein fyrir því að svona háleit markmið nást ekki nema með samstilltu átaki hjá íbúum, sveitarfélögum og ríki. Enginn efast um hvað það er brýnt að koma á öflugri háhraðanettengingu á landinu öllu ef við á annað borð ætlum að halda landinu í byggð. Vona ég að samstaða verði í þessum sal um að forgangsraða þannig að byrjað verði á veikustu byggðunum.

Það er sérstaklega ánægjulegt að heyra að ráðherra er jákvæð í málinu og hefur reyndar alltaf verið. Á það bæði (Forseti hringir.) við um núverandi innanríkisráðherra og fyrrverandi innanríkisráðherra og trúi ég því að hún fylgi málinu eftir eins og hún hefur getið hér í fjarskiptaáætlun og komi með þetta inn í þingið í haust.