144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

fjarskiptamál.

[11:29]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Auðvitað er internetið ekkert annað en bóla en sem slík orðin ansi þrálát og ekkert fararsnið á henni. Það eru engar pólitískar deilur um það markmið sem skýrsluhöfundar lýsa hér í dag. Þetta hefur verið viðfangsefni stjórnmálanna í rúma tvo áratugi og getuleysi okkar í því að byggja upp þau svæði þar sem hefur verið markaðsbrestur er sýnidæmi um það hvernig regluverkið getur stundum orðið til trafala. Við þurfum að búa við kerfi sem gerir okkur kleift að tryggja öllum það nútímasamgöngukerfi sem netið er þannig að 100 megabæt fyrir 2020 finnst mér vera háleit og góð markmið sem ég styð. Auðvitað eiga stjórnmálin að ná saman um þetta verkefni.

Því miður gerðist sá fáheyrði atburður í umhverfis- og samgöngunefnd í gær að tillaga Pírata um jafnt aðgengi að internetinu, þingsályktunartillaga sem er samstofna því máli sem hér er á ferðinni, var felld með liðssafnaði meiri hlutans, alveg ótrúleg og dæmalaus aðgerð sem var ekki rökstudd með neinu öðru en að það væri verið að vinna verkið á öðrum vettvangi. Ég hefði haldið að einmitt á þessu sviði þar sem hægt er að ná breiðri pólitískri samstöðu, þar sem breið pólitísk samstaða er mikilvæg, ættu menn að fagna því þegar aðrir koma með hugmyndir sem eru samstofna þeim sem verið er að vinna að, sérstaklega ef útséð er að það felur ekki í sér fjárútlát og er meira til þess að styrkja verkefnin. Píratar hafa sýnt sig sem stjórnmálaflokk sem hefur sérstakan áhuga á og leggur áherslu á þennan málaflokk (Forseti hringir.) og ætti frekar að vera nokkuð sem við (Forseti hringir.) í pólitíkinni tökum utan um og fögnum.