144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

fjarskiptamál.

[11:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það kemur ágætlega fram í þessari umræðu hversu miklu máli það gæti skipt að skipa starfshópa með öðrum hætti en hér var gert þó að ég ætli ekki að gera lítið úr þeirri vinnu sem þar var unnin og þeirri niðurstöðu sem þar kemur fram. Þar velur ríkisstjórnin það helmingaskiptafyrirkomulag að skipa sem formann þingmann frá Sjálfstæðisflokknum og einn þingmann frá Framsóknarflokknum, síðan ekki fleiri. Síðan koma tillögur frá Samfylkingu, hér eru nefndir Píratar og aðrir sem hafa heilmikið inn í málið að leggja og Vinstri grænir. Þeir koma núna að málinu þegar skýrslan liggur fyrir. Í þessu felst engin gagnrýni á skýrsluna, eins og ég sagði, en þetta er mikil gagnrýni á vinnubrögðin þar sem menn skilja 50% þjóðarinnar eftir þegar verið er að fjalla um málin og undirbúa þau fyrir þingmál. Ég segi þetta bara til að menn hafi það í huga. Þetta er því miður gert svona miklu víðar. Það er forvitnilegt að bera þetta saman við þá áætlun sem unnin var um jöfnun húshitunarkostnaðar. Þar var formaðurinn frá Sjálfstæðisflokknum sem var í stjórnarandstöðu í tíð fyrri ríkisstjórnar og vinnubrögðin allt öðruvísi.

Það sem mig langaði til að bæta við inn í umræðuna var að vart hefur orðið óþreyju hjá mjög mörgum sveitarfélögum og sum hver þeirra standa þannig að þau treysta sér til þess að fara í flýtiframkvæmdir varðandi lagfæringu á nettengingum og alþjónustunni á svæðinu. Mig langar aðeins að heyra frá bæði hv. málshefjanda, Haraldi Benediktssyni, og eins hæstv. ráðherra um það hvernig verði farið með þessi sveitarfélög. Þetta má ekki verða til þess að við vísum málinu inn í fjarskiptaáætlun, það tefjist sem þar er að gerast, þær lagfæringar sem eru að fara í gang á þessum svæðum, vegna þess að menn óttist að þeir verði út undan hvað varðar fjárveitingar. Mig langar að heyra aðeins sjónarmiðin hvað þetta varðar vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að allri þessari framkvæmd verði hraðað, ég tek undir það sem kom fram í umræðunni, það væri ráð að snúa sér fyrst að þeim sveitarfélögum (Forseti hringir.) þar sem ástandið er verst.