144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

fjarskiptamál.

[11:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu og ráðherra fyrir hennar framlag til hennar. Eins og hér hefur komið fram er þetta afskaplega gott dæmi um viðfangsefni þar sem þverpólitískt samráð er algjört grundvallaratriði. Stefnumörkun má ekki vera þannig í þessum málaflokki að hún þoli ekki kosningar og breytingar á ríkisstjórn eða meiri hluta o.s.frv. Ég óska eiginlega bara eftir því að hæstv. ráðherra tjái sig um það í lokaaðkomu sinni að umræðunni. Það er ekki til fyrirmyndar að við séum að ræða skýrslu sem er sett fram af meiri hlutanum í einhverjum skilningi og við séum að ræða tillögu til þingsályktunar sem borin er fram af VG eða tillögu Pírata sem var í raun og veru hafnað í umhverfis- og samgöngunefnd í gær. Þetta er bara svo stórt mál að við erum í raun og veru að tala um lífskjör í landinu og möguleika til þess að halda byggð í því. Það snýst líka um það að landið sé aðgengilegt, spennandi, valkostur víðar en á höfuðborgarsvæðinu, að það sé spennandi valkostur fyrir einstaklinga, fyrir fólk og fyrirtæki, fyrir stjórnsýslu og sprotafyrirtæki, fyrir nýsköpun o.s.frv., að þetta séu aðgengilegir innviðir og samkeppnishæft lagaumhverfi eins og Píratar hafa lagt áherslu á varðandi réttarstöðuna. Píratar hafa sérhæft sig sérstaklega í þessum málaflokki og eigum við ekki þá að nýta okkur það þverpólitískt, allt þingið, og njóta þess þegar tilteknir þingflokkar leggja meiri áherslu á tiltekinn málaflokk en annan þegar ekki er um að ræða pólitískan ágreining? Er ekki skynsamlegt að gera það þannig?

Ég bið hæstv. ráðherra að kommentera á það með hvaða hætti sé hægt að koma þessu máli á þá braut að við tökum það áfram þverpólitískt í samráði allra flokka til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag (Forseti hringir.) þvert á flokka. Annað er bara ekki ábyrgt.