144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

fjarskiptamál.

[11:39]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er sérstaklega ánægð með að fá þessa umræðu hér í dag, nú þegar umræða um skýrslu starfshóps hæstv. innanríkisráðherra um landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða hefur aðeins náð að þroskast. Vinna hópsins og skýrsla hans skilar okkur vel á veg í stefnumótun en í framhaldi af henni þarf að taka ákvarðanir og þess vegna var gott að heyra að hæstv. ráðherra er byrjaður að vinna úr tillögunum og hvet ég til þess að áfram verði unnið hratt og vel.

Það er einkum þrennt sem kemur upp í samræðum úti um landið um þessi mál í kjölfar skýrslunnar, það er mikilvægi þess að skýra samskipti og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga um verkefnið fram undan, það er stefnumörkun varðandi eignarhald á dreifikerfinu, ljósleiðaranum, því að nú þegar er eignarhaldið mjög flókið og það er breyting á ríkisstyrkjareglum.

Eignarhaldið er flókið. Nú þegar höfum við eignarhald þar sem sveitarfélög eiga ljósleiðarann, þar sem ljósleiðarinn er sameign sveitarfélaga og fjarskiptafyrirtækja og þar sem fjarskiptafyrirtækin eiga ljósleiðarann jafnvel þó að sveitarfélög hafi lagt fjármagn til verksins. Það er mjög mikilvægt að marka stefnu þarna og ég óska eftir sýn ráðherrans á það. Það kemur inn á réttarstöðuna sem fleiri þingmenn hafa minnst á í umræðunni um hvar notendur koma til með að standa.

Mig langar líka að beina til ráðherrans spurningu um hvenær við megum vænta innleiðingar á tilskipun Evrópusambandsins nr. 2014/61/EB, um lækkun kostnaðar við uppbyggingu á háhraðanetum, (Forseti hringir.) sem getur aukið möguleika til samnýtingar rekstraraðila.