144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

fjarskiptamál.

[11:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þingsályktunartillaga Pírata hefur svolítið strandað í umhverfis- og samgöngunefnd, annað forgangsmál okkar á þessu þingi, það fór til nefndarinnar 24. september og hefur verið þar, gestakomur eru búnar, drög að nefndaráliti er tilbúið og við hljótum nú að finna einhverja lausn þar sem hægt er að klára það vegna þess að þessi tillaga hérna, tillaga sem framsóknarmenn hafa verið með og þessi skýrsla sem við höfum verið að ræða miða að því að styrkja innviðina. Það er grundvallaratriði. Við tryggjum ekki samkeppnisstöðu á markaði nema réttarstaðan sé trygg samhliða. Þetta er „Net Neutrality“. Obama er búinn að höggva á hnútinn eins og ég hef nefnt áður og er farinn af stað að leysa málið í Bandaríkjunum. Í Evrópu eru menn að leysa þetta mál. Við þurfum að tryggja þetta á Íslandi líka. Ef við ætlum að tryggja samkeppnisstöðu nýsköpunarfyrirtækja sem eru að nýta sér upplýsingatækni og internetið verðum við að tryggja þetta líka. Það eina sem píratar eru að gera er að styðja við þá vinnu sem þegar er farin af stað hjá stjórnarflokkunum.

Í umsögn um mál okkar pírata frá Póst- og fjarskiptastofnun — ég bið hæstv. innanríkisráðherra að hlusta á það. (Innanrrh: Ég er að hlusta.) Já. Takk. Í lokaorðum umsagnarinnar kemur fram, með leyfi forseta:

„Málefni notenda intemetsins eru sífellt meira í brennidepli. Samkvæmt óinnleiddu Evrópuregluverki fjarskipta frá árinu 2009 er aðgangur að interneti nú flokkaður sem hluti af lágmarksmannréttindum innan ESB. Mikilvægt er að tryggja öllum landsmönnum slík réttindi og að settur verði reglurammi um það hvort og með hvaða hætti markaðsaðilar geti að öðru leyti haft áhrif á það hvernig borgarinn nýtir sér internettenginguna.“ — Þetta er lykilatriði. — „Því telur stofnunin mikilvægt að Alþingi hugi að umræðunni um nethlutleysi með ofangreint í huga.“

Ég trúi ekki öðru en að við getum (Forseti hringir.) fundið lausnina á … formaður nefndarinnar, Höskuldur Þórhallsson, tryggi það að koma þessu í gegn. Þá styrkjum við alla þessa vinnu sem stjórnarflokkarnir hafa verið í.