144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

framkvæmd samnings um klasasprengjur.

637. mál
[11:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Samþykki þessa frumvarps gerir Íslandi kleift að fullgilda samninginn um klasasprengjur sem gerður var í Dyflinni 30. maí 2008 og opnaður til undirritunar í Ósló 3. desember sama ár. Klasasprengjur eru tegund af sprengjum sem opnast við notkun og losa tugi eða hundruð minni sprengja sem dreifast yfir stórt svæði, jafnvel á stærð við nokkra fótboltavelli, og springa þegar þær lenda. Allar manneskjur á því svæði eiga á hættu að slasast alvarlega eða látast. Þessar sprengjur eru því ómarkvissar og ómannúðlegar, auk þess sem minni sprengjurnar virka oft ekki eins og til er ætlast þannig að margar þeirra lenda á jörðinni án þess að springa og þar liggja þær og geta skapað áframhaldandi hættu á svæðinu löngu eftir að átökum lýkur. Stór hluti fórnarlamba sprengjanna er börn og konur sem slasast af völdum þeirra í sínu daglega lífi á friðartímum. Mörg þúsund manns hafa slasast í gegnum árin og halda slysin áfram enn þann dag í dag.

Klasasprengjusamningnum er ætlað að vinna gegn þessari vá, en hann bannar meðal annars notkun, framleiðslu, útvegun, birgðasöfnun, varðveislu og flutning á klasasprengjum sem og hvatningu eða aðstoð við slíkar aðgerðir. Gerð samningsins var mikill áfangi á sviði mannúðarmála og studdi Ísland gerð hans frá upphafi.

Samningurinn er kenndur við svokallað Óslóarferli, enda tóku Norðmenn þetta málefni upp á sína arma og boðuðu til ráðstefnu um gerð samningsins eftir að viðræður um gerð hans höfðu siglt í strand í almennum afvopnunarviðræðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna árið 2006.

Fyrsta samningaráðstefnan var haldin í febrúar 2007 í Ósló og samningurinn var opnaður til undirritunar í desember 2008 sem er ótrúlega skammur tími fyrir gerð alþjóðasamnings. Í fyrstu var mikil tvísýni um árangurinn því að mörg vopnaveldi nota þessi vopn og gera enn, en á endanum hlaut hann víðtækan stuðning, ekki síst meðal þróunarlanda sem þessi vopn hafa bitnað sérstaklega mikið á. Frjáls félagasamtök tóku þátt í fundahöldunum og hjálpaði það mjög gerð samningsins, einkum framlag Rauða krossins og fleiri samtaka. Engar klasasprengjur eru framleiddar á Íslandi og engar slíkar sprengjur eru til hér á landi. Ísland hefur hins vegar reynt að leggja sitt af mörkum á þessu sviði, m.a. með hreinsun á svæðum sem eru menguð af sprengjunum. Með þessu frumvarpi vill ríkisstjórnin styðja þetta mikilvæga mannúðarmálefni og sporna gegn áframhaldandi notkun sprengja af þessari gerð. Nú þegar hafa 108 ríki undirritað samninginn og 91 ríki fullgilt hann, m.a. Danmörk, Noregur og Svíþjóð.

Framlagning frumvarpsins hefur dregist nokkuð af ýmsum ástæðum en ég geri mér vonir um að breið samstaða geti tekist um afgreiðslu þess á þessu þingi til að Ísland geti fullgilt samninginn áður en fyrsta endurskoðunarráðstefna hans verður haldin sem fram fer í Króatíu í september næstkomandi.

Að svo mæltu legg ég til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði að lokinni umræðu þessari vísað til 2. umr. og hv. utanríkismálanefndar.