144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[11:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi 144. löggjafarþing er boðað að lögð verði fram fjögur frumvörp til breytinga á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum, þ.e. frumvarp um einkaréttindi höfunda, samningskvaðir o.fl., í öðru lagi frumvarp um lengingu verndartíma hljóðrita, í þriðja lagi frumvarp um innleiðingu EES-tilskipunar um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum og í fjórða lagi frumvarp um eintakagerð til einkanota sem felur í sér endurskoðun á álagningu höfundaréttargjalds samkvæmt 11. gr. höfundalaga. Þrjú fyrstnefndu frumvörpin eru þegar komin fram á Alþingi og mun ég mæla fyrir þeim hér. Síðastnefnda frumvarpið hefur verið til kostnaðarmats hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og verður ekki lagt fram á Alþingi fyrr en niðurstaða hefur fengist þar.

Til upprifjunar fyrir þingheim má geta þess að umræða um þörf á endurskoðun höfundalaga vegna tækni- og samfélagsbreytinga hefur verið til umræðu á Alþingi allt frá árinu 1991. Sú heildarendurskoðun höfundalaga sem nú stendur yfir hófst 29. október 2009 þegar fyrirrennari minn í embætti, hv. alþingismaður Katrín Jakobsdóttir, kynnti svonefnt leiðarljós fyrir endurskoðun höfundalaga og þau voru svohljóðandi:

1. Höfundalög þurfa að vera skýr og auðskiljanleg.

2. Áhersla er lögð á að haldið sé lagasamræmi við önnur norræn höfundalög.

3. Efla þarf virðingu fyrir höfundarétti með tilliti til menningarlegrar og efnahagslegrar þýðingar hans.

4. Réttarúrræði fyrir rétthafa þurfa að vera skilvirk og hafa forvarnagildi.

5. Stuðla ber að því að notendur taki löglega kosti fram yfir ólöglega.

6. Höfundalög eiga að stuðla að jafnvægi á milli rétthafa og notenda.

7. Leggja ber áherslu á leiðbeiningar og fræðslu um höfundarétt fyrir rétthafa sem og notendur.

8. Áhersla er lögð á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs á sviði höfundaréttar.

Það frumvarp sem ég mæli fyrst fyrir, 702. þingmálið, felur í sér 2. og 3. áfanga heildarendurskoðunar höfundalaga. Tilgangur frumvarpsins er tvíþættur. Annars vegar er lagt fram að færa I. kafla höfundalaga sem fjallar um réttindi höfunda o.fl. til samræmis við þróun höfundalaga í öðrum norrænum ríkjum, einkum með tilliti til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001, um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.

Hins vegar er tilgangurinn með endurskoðun laganna að lögfesta breytt fyrirkomulag á samningskvaðaleyfum. Með samningskvöð er átt við að ákveðið er með lögum að notendum verka sem varin eru af höfundarétti, sem gert hafa samning við höfundaréttarsamtök um notkun á verkum aðildarfélaga/félagsmanna þeirra, t.d. með ljósritun, skuli einnig vera heimilt að nýta verk höfunda sem standa utan samtakanna enda séu verkin sömu tegundar og verk sem samningurinn tekur til og notkun að öðru leyti háð ákvæðum samningsins. Þetta fyrirkomulag auðveldar notkun verka til hagsbóta fyrir rétthafa og notendur í þeim tilvikum sem um mikla notkun fjölda verka er að ræða. Sem dæmi um slíkt má nefna ljósritun fyrir kennslu eða flutning tónlistar í útvarpi.

Vík ég þá að einstökum greinum frumvarpsins. Í 1. gr. er lagt til að tekið verði upp breytt orðalag á hugtakinu eintakagerð og jafnframt að notað verði orðasambandið „að gera verk aðgengileg“ í stað hugtaksins birting, samanber 1. gr. frumvarpsins.

Ákvæði 2. gr. frumvarpsins varðar skilgreiningu á birtingu og útgáfu verka. Í greininni er að finna skilgreiningu á hvenær verk telst löglega birt og hvað telst útgáfa verka. Þessar skilgreiningar hafa meðal annars þýðingu fyrir ákvæði í II. kafla laganna um takmarkanir sem miðast ýmist við löglega birt efni eða útgefin verk.

Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að 3. og 4. mgr. í 6. gr. gildandi laga sem fjalla um gagnagrunna falli á brott til að fyrirbyggja þann misskilning sem skapast hefur, að gagnagrunnar falli ætíð að skilgreiningu um safnverk. Breytingin hefur ekki áhrif á reglur laganna um gagnagrunna.

4. gr. frumvarpsins varðar breytta hugtakanotkun vegna samspils hönnunarverndar og höfundaverndar. Með breytingunni er staðfest að hlutir sem njóta verndar samkvæmt lögum um hönnun, nr. 46/2001, geti notið samhliða verndar samkvæmt höfundalögum.

Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði fjögur ný samningskvaðaákvæði. Þá er lagt til að tekið verði upp hugtakið samningskvaðaleyfi um þá heimild sem notendur fá til nota á verkum á grundvelli samningskvaðar.

Í 5. gr. er nýmæli. Lagt er til að opinberum skjalasöfnum og bókasöfnum verði veitt heimild til stafrænnar afritunar af safnkosti sínum og að gera slík afrit aðgengileg almenningi, t.d. á veraldarvefnum, að uppfylltum skilyrðum um samningskvaðaleyfi.

Í 9. gr. er nýmæli. Þar er lagt til að opinberar stofnanir geti samið um leyfi til að gera eintök af upptökum útsendinga hljóðvarps og sjónvarps fyrir afnot fyrir blinda, sjónskerta og heyrnarlausa.

Í 12. gr. er einnig nýmæli. Þar er lagt til að útvarpsstöðvar geti samið um leyfi til endurnýtingar á verkum úr safni sínu. Tilgangur ákvæðisins er að auðvelda útvarpsstöðvum uppgjör við rétthafa þegar veittur er aðgangur að áður útsendu efni úr safni þeirra, t.d. eftir pöntun, með því að það er gert aðgengilegt á netinu eða þegar um endurútsendingu er að ræða. Ég tel mikilvægt út frá menningarlegu sjónarmiði að hægt sé að endurnýta eldra efni stofnananna, bæði Ríkisútvarpsins og einkarekinna útvarpsstöðva. Miðað er við að heimildin nái til verka sem send hafa verið út fyrir gildistöku þessa frumvarps, þ.e. 1. júlí, 2015, og teljist til eigin framleiðslu þeirra.

Í a-lið 2. mgr. 14. gr. er nýmæli. Í ákvæði þar er lagt til að tekin verði upp almenn heimild til samninga um leyfi til nota á verkum í afmörkuðum, vel skilgreindum tilvikum. Ástæða þess að lagt er til að tekið verði upp slíkt almennt samningskvaðaákvæði er að með tilkomu netsins og þeim nýju miðlunarmöguleikum sem það býður upp á er ljóst að um fleiri og fleiri tilvik getur verið að ræða þar sem nauðsyn er á einföldum leiðum til að semja um víðtæka notkun, t.d. innan safna vegna varðveislu og miðlunar menningararfsins, án þess að til lagasetningar þurfi að koma í hvert sinn.

Í frumvarpinu er lögð til breyting á uppsetningu og orðalagi gildandi samningskvaðaákvæða og í sumum tilvikum útvíkkun á gildissviði þeirra. Verði frumvarpið að lögum verður unnt að gera samninga sem fela í sér samningskvaðaleyfi í eftirfarandi tilvikum:

1. Vegna heimilda safna til að gera eintök úr safnkosti sínum og gera slík eintök aðgengileg með rafrænum hætti, samanber 5. gr.

2. Til að endurbirta listaverk í almennu fræðsluefni, gagnrýni og vísindalegri umfjöllun, samanber 6. gr. frumvarpsins. Ákvæðið felur í sér töluverða breytingu og útvíkkun samningskvaðar um myndlistarverk frá gildandi ákvæðum höfundalaga. Með ákvæðinu er stuðlað að því að einfalda réttindauppgjör vegna endurbirtingar listaverka í almennu fræðsluefni í sambandi við gagnrýna og vísindalega umfjöllun sem fer fram í fjárhagslegum tilgangi. Með því að gera samning er veitir samningskvaðaleyfi er notanda auðveldað að afla heimildar, t.d. þegar um endurbirtingu margra verka í einu lagi er að ræða, svo sem við útgáfu alfræðirita. Sá fyrirvari er gerður í ákvæðinu að endurbirting verks á grundvelli samningskvaðaleyfis er óheimil ef höfundur eða annar rétthafi samkvæmt framsali eða fyrir erfðir viðkomandi verks hefur sett bann við slíkri notkun þess gagnvart samningsaðila. Sú heimild til samninga sem fæst með 6. gr. frumvarpsins er meðal annars til þess fallin að leysa langvarandi deilumál milli listasafna og Myndhöfundasjóðs Íslands – Myndstefs um endurgjald fyrir birtingu safnmunaskráa á veraldarvefnum.

3. Vegna eintakagerðar á útgefnum verkum til notkunar innan stofnana, samtaka og fyrirtækja vegna eigin starfsemi þeirra, þar með talið upptökur úr hljóðvarpi og sjónvarpi, samanber 8. gr. frumvarpsins. Þessu ákvæði er ætlað að koma í stað samningskvaðaákvæðis um ljósritun sem er að finna í 15. gr. a í lögunum en með víðtækara gildissviði.

4. Fyrir stofnanir til að gera eintök af upptökum útsendinga hljóðvarps og sjónvarps til nota fyrir blinda, sjónskerta og heyrnarlausa, samanber 9. gr. frumvarpsins, sem er nýmæli.

5. Vegna útsendinga á útgefnum verkum í útvarpi vegna annars opinbers flutnings sem ekki felur í sér miðlun efnis, samanber 10. gr. frumvarpsins. Ákvæði frumvarpsins er sambærilegt gildandi ákvæði 1. og 2. mgr. 23. gr. laganna.

6. Fyrir endurvarp um kapalkerfi, samanber 11. gr. frumvarpsins, sem er sambærileg gildandi ákvæði 23. gr. a í höfundalögum.

7. Til að heimila endurútsendingar útvarpsstöðva og gera aðgengileg á annan hátt áður útsend verk úr safni þeirra, samanber 12. gr. frumvarpsins.

8. Í afmörkuðum, vel skilgreindum tilvikum, samanber 2. mgr. a-liðar 14. gr. frumvarpsins.

Höfundalög annarra Norðurlandaþjóða hafa að geyma sérstök ákvæði um hvernig staðið skuli að samningum á grundvelli samningskvaða sem meðal annars eiga að tryggja rétt utanfélagsmanna sem bundnir eru af slíkum samningum. Gildandi samningskvaðaákvæði í íslenskum höfundalögum tiltaka hvert um sig ráðstafanir til að tryggja rétt utanfélagsmanna en ekki er samræmi milli þessara ákvæða. Gildandi ákvæði höfundalaga um samningskvaðir mæla svo fyrir að rétthafar sem standa fyrir utan viðkomandi samtök skuli hafa sama rétt og félagsmenn við úthlutun endurgjalds sem innheimt er samkvæmt samningi og veitir samningskvaðaleyfi. Ólíkar reglur gilda á hinn bóginn um rétt utanfélagsmanna til einstaklingsgreiðslna og hvernig skuli farið með ágreining um slíkar kröfur sem og um fyrningu slíkra krafna. Þá gilda ekki samræmdar reglur um hvernig með skuli fara ef ekki næst samkomulag á grundvelli samningskvaða. Mikilvægt er að um þessi atriði gildi samræmdar reglur og því er það lagt til í frumvarpinu, samanber c-lið 14. gr sem og 19. og 24. gr. frumvarpsins.

Í b-lið 14. gr. er mælt fyrir um rétt rétthafa til þóknunar fyrir afnot verka þeirra á grundvelli samningskvaða og í c-lið sömu greinar er nýmæli um sáttaumleitan ef næst samningur um afnot verks með samningskvaðaleyfi. Heimilt verður að óska eftir sáttameðferð hjá sérstökum sáttasemjara sem tilnefndur er af ráðherra.

Greinar 15, 16, 18, 20, 21, 23 og 26 fela í sér uppfærðar tilvísanir milli ákvæða í höfundalögum með hliðsjón af öðrum breytingum samkvæmt frumvarpinu.

17. gr. frumvarpsins felur í sér brottfellingu 45. gr. a í lögunum og í stað þess mun koma tilvísun í 3. mgr. 45. gr. laganna, til 23. gr. a eins og lagt er til að henni verði breytt með 11. gr. frumvarpsins.

22. gr. frumvarpsins felur í sér brottfellingu 53. gr. a í lögunum. Í stað þess kemur ný 4. mgr. í a-lið 26. gr. í lögunum, samanber a-lið 4. mgr. 14. gr. frumvarpsins.

Í 24. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 57. gr. höfundalaganna um úrskurðarnefnd í höfundaréttarmálum til samræmis við aðrar breytingar sem leiða af frumvarpinu, þar með talið ákvæði um sáttanefnd í c-lið 14. gr. frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Vík ég nú að breytingum á lögbannsheimild samkvæmt 59. gr. a í höfundalögum. Í 25. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um tvenns konar breytingar á 59. gr. a í höfundalögunum. Annars vegar er um að ræða uppfært orðalag í 1. mgr. 59. gr. a með tilliti til annarra breytinga sem felast í þessu frumvarpi. Hins vegar er mælt fyrir um þá breytingu á a-lið 2. mgr. 59. gr. að gefa skuli þjónustuþega í skilningi laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu kost á að gæta hagsmuna sinna við fyrirtöku lögbannsaðgerða eftir því sem við verður komið. Til skýringar er hugtakið þjónustuþegi notað yfir þann aðila sem stendur fyrir meintri, ólögmætri dreifingu höfundaréttarvarins efnis og lokun á netaðgangi beinist að.

Eftir gildistöku laga nr. 93/2010 sem innleiddu heimildina til að krefjast lögbanns á þjónustu milliliða, þ.e. fjarskiptafyrirtækja, hafa komið fram ábendingar um að hagsmuna þjónustuþega sé ekki nægilega gætt við málsmeðferð kröfu um lögbann við því að fjarskiptafyrirtækið miðli gögnum frá tiltekinni vefsíðu. Frumforsenda fyrir því að slíkur þriðji aðili geti gætt hagsmuna sinna í lögbannsmáli er að honum berist vitneskja um fyrirtöku þess og niðurstöðu. Fái hann í hendur tilkynningu um fyrirtöku lögbannsmáls sem beinist að þjónustu sem hann veitir getur hann tekið upplýsta ákvörðun um að neyta réttar síns samkvæmt 14. gr. laga nr. 31/1990 eða með því að óska eftir meðalgöngu í staðfestingarmáli á lögbannsaðgerð sem höfðað er fyrir dómstólum, samanber 20. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Þess ber þó að geta að oft liggur ekki fyrir hver fyrirsvarsmaður vefsíðu er eða hvar hann er að finna og því ekki unnt að uppfylla kröfu um tilkynningarskyldu til viðkomandi. Af þeim sökum er fyrirvari settur um aðgerðir samkvæmt ákvæðinu eftir því sem við verður komið.

Eins og rakið er í V. kafla í almennum athugasemdum með frumvarpinu komu fram athugasemdir við samráðsferli frumvarpsins frá samtökum tónskálda og textahöfunda þess efnis að lögbannsheimild á þjónustu milliliða, sem kom til með lögunum nr. 93/2010, hafi reynst rétthöfum torsótt í framkvæmd og þar einkum vísað til málsmeðferðar hjá sýslumannsembættinu í Reykjavík. Þessi umræða hefur vakið mig til umhugsunar um hvort ástæða sé til þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis taki til athugunar við meðferð frumvarpsins og þá í samráði við innanríkisráðuneytið hvort ástæða sé til að lögfesta beinan aðgang rétthafa að flýtimeðferð hjá héraðsdómi í slíkum málum án þess að fyrst sé leitað til sýslumanns. Í þessu sambandi vil ég árétta þá skoðun sem ég hef áður lýst að það eigi að vera verkefni dómstóla að mæla fyrir um lokun aðgangs að vefsvæðum sem talin eru uppspretta fyrir ólöglega dreifingu á höfundaréttarvörðu efni. Það á að mínu mati ekki að vera verkefni stjórnsýslustofnana að mæla fyrir um ritskoðun netsins.

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni er þetta frumvarp afrakstur 2. og 3. áfanga í heildarendurskoðun höfundalaga sem er orðin mjög brýn vegna örrar þróunar á sviði tækni og samfélags. Einnig skiptir máli að fylgt verði eftir þróun í löggjöf nágrannaríkja Íslands hvað þetta varðar.

Ég legg til að að þessari umræðu lokinni verði þessu frumvarpi vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.

Vík ég nú, virðulegi forseti, að þingmáli nr. 701. Það frumvarp felur í sér innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2011/ 77/ESB frá 27. september 2011, um breytingu á tilskipun 2006/116/EB, um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda, sem var tekin upp í XVII. viðauka um hugverkaréttindi við samning um Evrópska efnahagssvæðið, með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2013 sem tók gildi 1. ágúst 2014. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar bar að innleiða hana í aðildarríkjum Evrópusambandsins eigi síðar en 1. nóvember 2013 en EES/EFTA-ríkjunum var veittur frestur til 1. ágúst 2014 til að innleiða tilskipunina.

Í frumvarpinu er lagt til að tilskipunin verði innleidd með breytingu á 43. gr., 45. gr., 46. gr. og 63. gr. gildandi höfundalaga. Auk þess er lagt til að við lögin verði bætt þremur nýjum greinum sem verða 47. gr. a, 47. gr. b og 47. gr. c.

Þær breytingar sem lagðar eru til á höfundalögum í frumvarpi þessu taka til eftirfarandi atriða:

1. Lagt er til að útreikningur á verndartíma tónverka með texta verði samræmdur þannig að verndartími tónlistar og söngtexta verði 70 ár frá dánarári þess höfundar sem lengur lifir, hvort sem það er tónskáld eða textahöfundur.

2. Í frumvarpinu felst tillaga um lengdan verndartíma á hljóðritum á eftirfarandi hátt:

a. Að verndartími fyrir rétt flytjenda til hljóðrita af listflutningi þeirra sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi lengist úr 50 árum í 70 ár, reiknað frá útgáfudegi eða þegar hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi.

b. Sama breyting er lögð til á rétti framleiðenda hljóðrita til hljóðrita sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi.

3. Framlengingu verndartíma hljóðrita fylgir nýtt ákvæði um rétt listflytjenda til árlegrar viðbótarþóknunar á framlengdum verndartíma. Viðbótarþóknunin skal samsvara 20% af þeim tekjum sem framleiðandi hljóðrits hefur af því á framlengdum verndartíma.

4. Frumvarpið felur í sér nýtt ákvæði sem heimilar listflytjanda að segja upp samningi um framsal réttinda ef umsamin réttindi eru ekki nýtt í nægilegum mæli.

5. Loks er í frumvarpinu sérstakt ákvæði um gildistöku sem segir til um í hvaða mæli hinum breyttu reglum verður beitt um gildandi réttindi og framsalssamninga.

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem ég mæli hér fyrir felur í sér mikilvæga réttarbót fyrir flytjendur, sem fá nú 20 ára framlengingu á þann hluta ævitekna sinna sem kemur frá hagnýtingu hljóðrita. Í ítarlegri greinargerð með frumvarpinu er farið ítarlega yfir hverja efnisgrein frumvarpsins fyrir sig og möguleg álitaefni umfram það sem ég hef tæpt á í ræðu minni. Rétt er að vekja athygli á að Eftirlitsstofnun EFTA fylgist grannt með framgangi þessa frumvarps hér á landi enda er frestur til innleiðingar tilskipunar 2011/77/ESB liðinn og næsta skref hjá stofnuninni er að vísa málinu til EFTA-dómstólsins.

Að þessu mæltu legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu, virðulegi forseti, vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.

Virðulegi forseti. Ég held þá áfram framsögu minni um þessi þrjú mál og mæli nú fyrir þingmáli nr. 700, frumvarpi um breyting á höfundalögum nr. 73/1972, með síðari breytingum. Tilgangur frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB, um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum, sem var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/2015 frá 6. febrúar 2015, með breytingum á XVII. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992. Nú skal fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB frá 25. október 2012 um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum.

Utanríkisráðherra hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar á yfirstandandi þingi um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn. Innleiðingu tilskipunar á að vera lokið fyrir 6. ágúst 2015.

Menningarstofnanir sem varðveita menningararf Evrópu eru í óðaönn að stafvæða verk í söfnum sínum til að varðveita og gera þau aðgengileg á netinu. Stór hluti verka sem er að finna í menningarstofnunum er háður höfundarétti. Til að gera stafræn eintök af verki sem nýtur verndar höfundalaga þarf annaðhvort heimild rétthafa eða sérstaka undantekningu í höfundalögum. Þegar um verk er að ræða sem teljast munaðarlaus, þ.e. verk sem njóta höfundaréttar en þar sem höfundur eða aðrir rétthafar eru ekki þekktir, eða þótt þeir séu þekktir er ekki vitað hvar þá er að finna, er ekki unnt að leita heimildar hjá viðkomandi til að stafvæða verkin og gera þau aðgengileg. Tilskipuninni er ætlað að leysa þennan vanda sem menningarstofnanir margra Evópuríkja standa frammi fyrir til að tryggja að ekki sé gloppa í aðgengi að menningararfi Evrópu í stafrænu formi. Til að ná því markmiði heimilar tilskipunin ákveðnum menningarstofnunum að nota verk án heimildar rétthafa ef eftir ítarlega leit er komist að þeirri niðurstöðu að viðkomandi verk séu munaðarlaus.

12. gr. höfundalaganna heimilar ákveðnum söfnum að gera eintök af verkum sem eru í safnkosti þeirra til notkunar í eigin starfsemi og til útlána slíkra eintaka að hluta án sérstaks samþykkis rétthafa. Engin ákvæði eru á hinn bóginn í höfundalögum um heimild stofnana til að veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu til að gera eintök af verkum sem er að finna í söfnum þeirra og/eða gera þau aðgengileg. Í þingmáli 702, sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi og áður hefur verið gerð grein fyrir í framsögu, er lagt til að tekið verði upp sérstakt samningskvaðaákvæði fyrir söfn sem falla undir 12. gr. sem yrði 12. gr. b, samanber 5. gr. þess frumvarps. Það ákvæði mundi heimila viðkomandi söfnum að gera eintök af birtum verkum í safni sínu og gera þau aðgengileg almenningi ef fyrir hendi er samningskvaðasamningur til þess bær rétthafasamtök. Ef slíkur samningur er til staðar nær heimildin til allra verka sem undir hann falla, einnig verka rétthafa sem ekki eru félagar í viðkomandi rétthafasamtökum, samanber 14. gr. þess frumvarps. Ef frumvarp á þingmáli 702 nær fram að ganga mun þetta ákvæði gera slíkum söfnum kleift að gera stafræn eintök og gera þau aðgengileg, t.d. á netinu, í samræmi við ákvæði samningskvaðasamningsins.

Sömuleiðis er í því frumvarpi að finna tillögu að samningskvaðaákvæði sem yrði að nýrri 23. gr. b höfundalaga, samanber 12. gr. þess frumvarps, sem heimilar útvarpsstöðvum endurútsendingu verka úr safni þeirra og einnig að gera þau aðgengileg almenningi, þar með talið á þann hátt að hver og einn geti nálgast verkin á þeim stað og stund sem hann sjálfur kýs ef fyrir hendi er samningur við til þess bær rétthafasamtök. Ákvæðið mun tryggja að ef útvarpsstofnun hefði samningskvaðasamning, þar að lútandi gæti stofnunin notað verk sem væri í safni hennar sem teldist hennar eigin framleiðsla og hefði áður verið sent út af viðkomandi stofnun, hvort sem rétthafar verksins væru félagar í þeim rétthafasamtökum sem væru bær til þess að standa að slíkum samningi eða ekki, samanber 14. gr. þess sama frumvarps.

Þá að skilgreiningu, virðulegi forseti, á því hvað telst vera munaðarlaust verk. Í a-lið 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um skilgreiningu á hugtakinu munaðarlaust verk sem er verk í rituðu máli, hljóðrit, myndrit eða kvikmyndaverk þar sem enginn rétthafi hefur verið fundinn þrátt fyrir ítarlega leit. Stofnanir sem hafa heimild til að nota munaðarlaus verk: Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimild almenningsbókasafna, menntastofnana, safna, skjalasafna og varðveislustofnana kvikmynda og hljóðrita ásamt stofnunum sem veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu til að nota munaðarlaus verk. Í fyrstu formálsgrein tilskipunarinnar er undirstrikað að þetta séu þær stofnanir sem fást við að stafvæða evrópska menningararfinn til að byggja upp stafræn söfn innan Evrópu.

Þá að verkum sem frumvarpið tekur til. Frumvarpið tekur í fyrsta lagi til verka sem útgefin eru í formi bóka, tímarita, dagblaða eða annars ritaðs máls.

Í öðru lagi tekur frumvarpið til myndrita og kvikmyndaverka, auk hljóðrita sem hafa verið útgefin eða hefur verið útvarpað.

Frumvarpið tekur eingöngu til verka sem tilheyra safnkosti þeirra stofnana sem hafa heimild til að nota munaðarlaus verk, þ.e. stofnun fær eingöngu heimild til að nota verk samkvæmt frumvarpinu sem er að finna í safnkosti þeirrar stofnunar.

Frumvarpið tekur einnig til verka eða skyldra réttinda sem eru hluti af munaðarlausu verki, annaðhvort innfelld, t.d. teikning í bók, eða sem órjúfanlegur hluti verks, t.d. listflutningur tónlistarmanns á tónverki.

Hvað er átt við með hugtakinu „ítarleg leit“? Forsenda fyrir afnotum munaðarlausra verka er að ítarleg leit að rétthöfum hafi farið fram áður en verkin eru notuð, samanber c-lið 1. gr. frumvarpsins sem byggist á 3. gr. tilskipunarinnar. Tilskipunin skyldar þær stofnanir sem framkvæma ítarlega leit og sem nota munaðarlaus verk til að halda skrá yfir leitina og afnotin ásamt upplýsingum um stöðu munaðarlausra verka og tengiliðaupplýsingum um viðkomandi stofnun. Skráðar upplýsingar skal senda til lögbærra stjórnvalda í viðkomandi ríki, samanber 5. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Jafnframt skal þeim komið til miðlægs evrópsks gagnagrunns sem rekinn skal af samræmingarskrifstofu innri markaðarins, samkvæmt reglugerð nr. 386/2012, og skal vera aðgengilegur almenningi, samanber 6. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar.

Tilgangurinn með hinum miðlæga gagnagrunni er að koma í veg fyrir tvíverknað við leit rétthafa og jafnframt að hjálpa rétthöfum og öðrum að finna upplýsingar um verk sem talin eru munaðarlaus.

Þá að heimild til afnota á munaðarlausum verkum. Í b-lið 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er heimild til notkunar munaðarlausra verka með því að gera eintök af þeim í þeim tilgangi að setja þau á stafrænt form, gera þau aðgengileg og skrá, flokka, varðveita og gera við þau.

Þá er heimilt að gera þau aðgengileg almenningi á þann hátt að hver og einn geti fengið aðgang að verkum á þeim stað og þeirri stundu sem viðkomandi kýs. Ekki er þó heimilt að gera verkin aðgengileg á annan hátt, t.d. með því að útvarpa þeim. Afnot á grundvelli tilskipunarinnar eru eingöngu heimil ef þau eru vegna markmiða stofnunarinnar sem varða hlutverk þeirra í almannaþágu.

Rétt er að vekja athygli á að í frumvarpi á þingmáli 702, sem áður hefur verið gerð grein fyrir, er gert ráð fyrir upptöku almenns samningskvaðaleyfis sem heimilar samtökum rétthafa og notenda að gera samning um hagnýtingu verka á afmörkuðu og vel skilgreindu sviði þegar samningskvaðaleyfi er forsenda þess að nýtingin sé möguleg. Þá er í sama frumvarpi gert ráð fyrir heimild safna sem falla undir 1. mgr. 12. gr. í höfundalögum til að gera eintök af birtum verkum í safni sínu og að gera þau aðgengileg að uppfylltum framangreindum skilyrðum. Til samans getur sú heimild sem felst í frumvarpi þessu til nýtingar munaðarlausum verkum og heimild sem ráðgert er að fáist í öðru frumvarpi um nýtingu verka sem enn eru háð höfundarétti með samningskvaðaleyfi nýst söfnum til að koma safneign sinni á stafrænt form og gera hana aðgengilega almenningi.

Þá að lokum þess að verk séu talin munaðarlaus, virðulegi forseti. Rétthafar verks geta hvenær sem er komið og afturkallað stöðu munaðarlauss verks að því er varðar rétt þeirra. Í a-lið 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins kemur fram að verk skuli ekki lengur teljast munaðarlaust og afnot þess ekki lengur heimil án samþykkis rétthafa ef hann gefur sig fram við þá stofnun sem notar verkið. Rétthafar munu líka geta sent kröfu um rétt sinn til verksins í gegnum hinn miðlæga gagnagrunn OHIM sem áframsendir tilkynningu rétthafans til þeirra stofnana sem eru að nota verkið ásamt þeirri stofnun sem framkvæmdi hina upphaflegu ítarlegu leit.

Rétthafi að munaðarlausu verki sem hefur verið notað á rétt á sanngjörnum bótum fyrir notkun þess, samanber a-lið 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem ég mæli hér fyrir er mikilvægur þáttur í að skapa lagagrundvöll fyrir það starf sem fram undan er hjá opinberum varðveislu- og miðlunarstofnunum í að koma menningararfinum á stafrænt form og gera aðgengilegan almenningi. Um frekari skýringu við frumvarpið vísa ég til greinargerðar og athugasemda við einstök ákvæði frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að nefna að gefnu tilefni eftir þennan lestur að ljóst má vera að hér er margt frekar flókið viðfangs. Ég óska nefndinni alls góðs við að fara í gengum þessi frumvörp. Ég rifja það upp að fyrrverandi hæstv. ráðherra, Katrín Jakobsdóttir, núverandi hv. alþingismaður, kynnti, eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar svonefnd leiðarljós fyrir endurskoðun höfundalaganna. Þar var fyrsta leiðarljós þetta:

Höfundalög þurfa að vera skýr og auðskiljanleg.

Ég fullyrði að allt hefur verið reynt til að gera þetta eins auðskiljanlegt og hægt er, en ég geri mér líka grein fyrir því að þetta eru mjög flókin mál og geri mér þar með fulla grein fyrir því að það getur tekið þingið einhvern tíma að fara í gegnum þessi atriði. Þó eru skýr meginprinsipp hér undir, þ.e. til samræmingar íslenskum rétti og norrænum á þessu sviði, og síðan til þess að skerpa á og skýra einstakar réttarreglur sem hefur þótt skorta á skýrleika.

Virðulegi forseti. Ég hef þá lokið framsögu minni um þingmálin nr. 700, 701 og 702 sem varða öll breytingar á höfundalögum. Að þessu mæltu legg ég til að því frumvarpi sem ég mælti síðast fyrir, virðulegi forseti, verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.