144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[12:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að þeirri ákvörðun sem var tekin um málsmeðferð í þinginu. Ég gef mér að þetta sé niðurstaða af fundum þingflokksformanna. Þá get ég lítið annað sagt en að við lögðum til að þetta yrði gert. Menntamálaráðherra stýrir ekki þinginu, það er ákvörðunarvald forseta að gera þetta með þessum hætti, en við vorum á því að þessi mál væru nægjanlega efnislega lík til að það færi vel á því að ræða þau saman. Vissulega eru þau ekki eins, ég er alveg klár á því, virðulegi forseti, en ég sagði líka í ræðu minni að ég gerði mér jafnframt grein fyrir því að þetta væru um margt flókin mál sem þingið þyrfti að taka sinn tíma í að ræða á vettvangi nefndarinnar og hér í þingsal. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir kallaði eftir því að ég yrði sem mest viðstaddur þessa umræðu og ég mun leitast við að vera það sem mest ég get.

Ég get ekki svarað afgerandi hinni nákvæmu spurningu þingmannsins en hugmyndin er auðvitað sú að einfalda þetta regluverk (Forseti hringir.) og gera það skýrara.