144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[12:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. menntamálaráðherra bendir á er hérna um frekar flókið mál að ræða og vissulega flóknara en venjulega þegar mál eru flókin, einmitt vegna þess að breytingarnar eru svo hraðar. Nú búum við í heimi þar sem er Netflix og Spotify og markaðurinn virkar öðruvísi en áður, sem betur fer, og mér finnst endurspeglast svolítið í þessum frumvörpum öllum að þau taki ekki mið af þeim tækniframförum sem hafa átt sér stað þrátt fyrir að frumvarpið sé hugsað til þess að uppfæra lögin í samræmi við tækniframfarir.

Hins vegar virðast þessar uppfærslur á lögunum á sama tíma vera hugsaðar til þess að halda í gamlar hugmyndir sem einfaldlega eru ekki tæknilega samhæfðar við nútímatækni. Ég hjó eftir þessu með lögbannskröfurnar í 59. gr. Nú hefur þessu ákvæði verið beitt. Það hefur verið lokað á vefi eins og Pirate Bay hjá fyrirtækjum eins og Hringdu og afraksturinn er enginn, nákvæmlega enginn. Það er nákvæmlega jafn auðvelt að komast (Forseti hringir.) í þetta efni og þá velti ég fyrir mér hvert næsta skref verði. Hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér í því?