144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[12:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar síðasta atriðið í fyrirspurn þingmannsins sem sneri að lögbannskröfum er í þessu frumvarpi lagt til að lögfest verði ákvæði sem tryggir stöðu þjónustuþegans, þ.e. þess sem rekur þá síðu sem lögbannið beinist að, þannig að þá sé tryggt að gerð hafi verið tilraun til að hafa samband við viðkomandi aðila og gera mögulegt að bregðast við. Ef sá aðili finnst ekki er ekkert við það að eiga.

Aftur á móti nefndi ég í framsögu minni, sem er bara mín hugleiðing, að ég telji þurfa að tryggja að ef um einhvers konar lokanir er að ræða sé það gert með aðkomu dómstóla. Ég tel að það fari kannski ekki allt of vel á því að embættismenn grípi til slíkra ráðstafana.