144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[12:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Vissulega á slíkt heima hjá dómstólum og það vekur ótta hjá mér og fleirum að lögbönn verði á einhvern hátt staðlað ferli, „standard procedure“. Óttinn felst í því að höfundaréttarbrot á netinu eru með afbrigðum auðveld. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir þau nema með miklu offorsi og gríðarlegum valdheimildum til handa yfirvöldum eða hagsmunasamtökum til að loka á eitt og annað. Þetta hefur verið reynt hér og þetta hefur mistekist gjörsamlega.

Eftir 20 ár af því að reyna sífellt að setja lög og búa til tækni til að hindra höfundaréttarbrot eru mistökin fullkomin. Það hefur aldrei verið auðveldara að sækja sér höfundaréttarvarið efni en nú. Á sama tíma blómstrar iðnaðurinn þvert á þær spár sem jafnan er talað um þegar menn vilja kvarta undan þessu. Sömuleiðis velti ég fyrir mér hvar þessu eigi að ljúka. Þessi lögbönn virka ekki, við vitum að þau virka ekki. (Forseti hringir.) Hvað gerum við til að takast á við höfundaréttarbrot sem gengur ekki lengra?