144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[12:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa nefnt það að það sé ekki endilega heppilegt að ræða þessi mál hér öll saman. Þau eru ekki alls kostar sama eðlis, hér er um að ræða tvær tilskipanir annars vegar og hins vegar mál sem er ekki tilskipun á Evrópurétti.

Hæstv. ráðherra gerði að sérstöku umtalsefni í ræðu sinni að þessi mál þyrftu mikinn tíma og ég vil þá spyrja hvort hann telji ekki eðlilegt að þingið fái þann mikla tíma, hvort nokkuð pressi á að þessum málum verði lokið fyrir þinglok þegar 14 þingfundadagar eru eftir samkvæmt starfsáætlun Alþingis.

Á þingmálaskrá hæstv. ráðherra voru fjögur mál sem lutu að höfundarétti en einungis voru lögð fram þrjú þó að vitnað sé í fjögur mál í öllum greinargerðum þeirra mála sem liggja hér fyrir. Hvað veldur því að fjórða málið, sem lýtur þá væntanlega að gjaldtöku á græjum svo maður segi þetta á auðskiljanlegu máli, var (Forseti hringir.) ekki lagt fram núna?