144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[12:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil þá orð hæstv. ráðherra svo að það sé ekki þrýstingur frá Evrópusambandinu á að þessar gerðir verði innleiddar í vor, að við höfum í raun nægan tíma til að fara yfir þau mál. Stundum höfum við þurft að taka á því á Alþingi að hér eru lögð fram mál sem eru jafnvel komin í einhvers konar óefni gagnvart samstarfi okkar innan EES þannig að það væri gott að fá staðfestingu hæstv. ráðherra á því.

Ef von er á fjórða frumvarpinu úr kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins, eigum við þá von á því að það verði lagt hér fram til kynningar? Eins og ég skildi málin er þetta ákveðinn pakki sem er lagður fram saman og hefði verið langæskilegast að fá þá fjórða frumvarpið með til að þingmenn hafi heildarmyndina undir þegar þeir fjalla um málin. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann eigi von á því að það frumvarp verði lagt fram, a.m.k. til kynningar, áður en þingi lýkur.