144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[12:40]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fari þetta mál inn í nefnd núna að lokinni þessari umræðu geri ég ráð fyrir að það verði sent til umsagnar og þurfi örugglega þrjár vikur. Það sýnir okkur þá að það er ein vika eftir fyrir nefndina til að fá til sín gesti á grundvelli þeirra umsagna. Ég ímynda mér að þrjú flókin mál, eins og hæstv. ráðherra orðar það, sem hafa verið lengi í smíðum þyrftu jafn mikla viðveru í þinginu og í ráðuneytinu, ekki minni. Ég hefði talið affarasælla fyrir ráðherra og ráðuneytið að auglýsa málið á heimasíðu sinni og gefa almenningi færi á að gefa umsagnir. Það gæti flýtt fyrir vinnu málsins í haust en mér sýnist útilokað að ljúka þessu máli á vorþinginu, jafn lítill tími og er eftir til þingstarfanna.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur fólki verið gefið færi á því á heimasíðu ráðuneytisins að veita umsagnir um þessi mál?