144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[13:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hefði ég óskað þess að hafa meiri tíma til að ræða öll þessi mál. Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í að ræða það hér og nú enda hefur virðulegur forseti sýnt skilning sinn á því öllu saman og sýnt það viðhorf að vilja endilega greiða úr eins og frekast er unnt.

Við ræðum hérna þrjú mál í einu, 700., 701. og 702. þingmál sem varða höfundarétt, en eins og margir hljóta að vita um þessar mundir er flokkur pírata stofnaður beinlínis vegna höfundaréttarmála og áhrifa höfundaréttar á frjáls samskipti á internetinu. Þau frumvörp sem við ræðum hér eru ekki alslæm, þau eiga það hins vegar sameiginlegt að mínu mati að þau taka ekki tillit til þess nýja tíma sem við búum í nema að því marki að reyna að halda í gamlar og ríkjandi hugmyndir um það hvernig höfundalög eiga að virka. Vandinn er sá að þau virka ekki með hliðsjón af nútímatækni, þ.e. ef við ætlum okkur að lögum sé fylgt og að þeim sé hægt að framfylgja á einhvern hátt.

Í því sambandi langar mig til að minnast á fyrirbæri sem heitir viðskiptakostnaður. Ég hygg að flestir hér inni viti hvað það þýðir en það er sá kostnaður sem fylgir því að eiga í viðskiptum. Viðskiptakostnaður er á þremur meginsviðum, við leit og upplýsingaöflun, við samningagerð og síðan við eftirfylgni og eftirlit með samningum. Á netinu vil ég meina að sé fullkomlega ómögulegt að stunda eftirfylgni og eftirlit með samningum, þ.e. ef við tökum fyrir samninga þar sem einn kaupir til dæmis eitt lag eða eina kvikmynd vegna þess að efnið fer í dreifingu og þá verður það órekjanlegt ef netið er frjálst og opið, og helst vegna þess að höfundaréttarvarið efni er ólíkt ólöglegu efni að því leyti að það er löglegt að framleiða kvikmyndir, tónlist, listaverk og hugverk og það er löglegt að dreifa þeim og það er löglegt að neyta þeirra. Fólk vill hýsa þetta, það vill njóta þess og dreifa þessu. Þunginn sem er í því að brjóta höfundaréttinn er miklu meiri en þegar kemur að dreifingu á ólöglegu efni af öðrum toga. Hér er um að ræða afþreyingu en ekki eitthvað sem varðar beinlínis glæpi eins og til dæmis gagnvart börnum eða ofbeldisverk. Þarna á er eðlismunur.

Af þessu leiðir að það að reyna að hafa stjórn á upplýsingum á netinu þegar kemur að höfundarétti verður í reynd ómögulegt. Mér finnst þessi frumvörp ekki taka tillit til þess enda er þetta umræðuefni sem er alltaf í mikilli gerjun. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra lýkur þessu umræðuefni í raun og veru aldrei, a.m.k. ekki meðan heimurinn heldur áfram að breytast.

Nú er verið að endurskoða höfundaréttarmál í Evrópusambandinu og mér finnst mikilvægt að við vitum fyrir fram hverjar slíkar breytingar verða áður en við getum endanlega tekið ákvörðun um þær breytingar sem hér liggja fyrir. Hér liggja fyrir breytingar á hugtökum og ýmsum hlutum sem varða inntakið í höfundarétti og þess vegna finnst mér ekki heppilegt að við setjum lög hér og nú sem koma til með að breytast skömmu eftir það að því gefnu að Evrópusambandið hugsi sér einhverjar breytingar í málaflokknum eins og lítur út fyrir. Það er ein af mörgum ástæðum þess að mér þykir óheppilegt hversu seint þetta kemur fram á þingi þótt ég beri fulla virðingu fyrir því að hér sé vandað til verka. Ég tel ekki líklegt að það takist, a.m.k. ekki miðað við núverandi starfsáætlun, að ljúka þessu máli hér í vor, einfaldlega vegna þess að við eigum að vanda okkur við þetta mál eins og frekast er unnt og sömuleiðis að við höfum ekki aðgang að öllum þeim upplýsingum sem varða þróunina á þessum málum til frambúðar.

Nú hafa þessi frumvörp verið í bígerð í dágóðan tíma sem er fínt. Auðvitað er það fylgifiskur þess að vanda vel til verka, en það hefur þau leiðinlegu fylgiáhrif að þau úreldast heldur hratt miðað við það sem er í gangi annars staðar í heiminum.

Úr því að við erum að ræða öll þessi frumvörp í einu langar mig aðeins að nefna lengingu verndartíma hugverka. Einu rökin sem ég sé fyrir því í frumvarpinu, það er þá 701. mál sem um ræðir, eru á þá leið í stuttu máli að fólk lifir lengur og þess vegna þurfi að lengja verndartíma höfundaréttar flytjenda úr 50 í 70 ár. Gott og vel. Þegar kemur hins vegar að verndartíma höfundar er hann framlengdur úr 50 í 70 ár eftir andlát höfundarins. Þetta kemur mér spánskt fyrir sjónir vegna þess að maður nýtur ekki ávaxta erfiðis síns þegar maður er látinn. Ég sé ekki hvernig slík lenging ætti að auka hugverkasköpun sem er, þegar allt kemur til alls, upprunalegt inntak höfundaréttar, að auka listsköpun, búa þannig um hnútana að fólk sjái sér hag í því að framleiða hugverk og listaverk af ýmsu tagi. Ég sé ekki að þessi breyting muni hafa það í för með sér. Ég sé ekki vitnað í neinar rannsóknir sem sýna fram á það. Það hafa hins vegar verið gerðar rannsóknir á efninu. Landes og Posner komust árið 2003 að þeirri niðurstöðu, að teknu tilliti til fyrningar, að kjörlengd væri í kringum 15 ár að meðaltali. Hvert viðbótarár eftir það skilar að meðaltali litlum ávinningi. Þess má geta að ef verndartíminn er of langur er það sóun á gæðum sem hægt er að nota endurgjaldslaust en þvælast ellegar fyrir í einhvers konar höfundaréttarflækju.

Það sem mér liggur fyrst og fremst á hjarta í þessu öllu saman er spurningin um það hvernig höfundaréttarlög eiga í meginatriðum að vera. Vandinn sem ég sé fyrir mér, og ég vona að hæstv. ráðherra sé reiðubúinn að koma í smáspjall um þetta hér og víðar, er hvernig í ósköpunum við ætlum á tímum internetsins, sem ég geri ráð fyrir að allir hér inni vilji hafa frjálst og opið, að framfylgja höfundarétti gagnvart einstaklingum. Það er svolítið öðruvísi að haga málum með einstaklinga en fyrirtæki. Ef við erum að tala um fyrirtæki eins og Netflix, Spotify, YouTube og Hulu og allar þessar efnisveitur eiga þau það sameiginlegt að þau vilja vera á markaði þar sem þau njóta réttarverndar. Þau vilja búa í réttarríki, vilja vera aðgengileg og standa skil á skuldum sínum. Á þessi fyrirtæki og fyrirtæki almennt er hægt að leggja ákveðnar skyldur, skyldur sem er ekki raunhæft eða skynsamlegt að leggja á einstaklinga.

Það er hægt að krefjast þess að það sé miklu ríkara eftirlit með fyrirtækjum en einstaklingum. Þess vegna finnst mér mikilvægast að höfundaréttarlög hætti að snúast um einkaleyfi höfunda til að dreifa og fjölfalda efni og hugi frekar að því að höfundar hafi einkaleyfi til að hagnast á verkum sínum. Þar á er grundvallarmunur. Það er hægt að búa til viðskiptamódel sem heimilar höfundum einhverja stjórn gagnvart fyrirtækjum, gagnvart lögaðilum sem vilja búa í réttarríki og vilja haga sér lögum samkvæmt. Það er miklu erfiðara þegar um er að ræða hundruð milljóna einstaklinga hér og þar sem eru bara á einhverjum tölvum úti í bæ og brjóta bara höfundaréttarlög sama hvað tautar og raular. Það er ekki hægt að hafa stjórn á þessu fólki og ég legg til að við eigum ekki að vilja hafa stjórn á því. Við eigum ekki að vilja stjórna samskiptum á netinu nema að því marki sem er algjör nauðsyn sem er náttúrlega neyð. Þegar við höfum stjórn á þessu eigum við að gæta þess að það sé samkvæmt reglum réttarríkisins, þ.e. að sjálfsögðu með dómsúrskurði o.s.frv.

Viðskiptakostnaðurinn sem ég nefndi áðan kemur þar inn. Ef fyrirtæki ætlaði eða yfirvöld ætluðu raunverulega að framfylgja dreifingarbanni á höfundaréttarvörðu efni, þ.e. ef ekki er staðið löglega að viðskiptunum, væri kostnaðurinn við það að framfylgja höfundarétti svo gríðarlegur að það væri í reynd ómögulegt, það mundi aldrei nokkurn tímann borga sig. Þess í stað hafa verið settar reglur sem miða að því að velta ábyrgðinni yfir á einhverja aðra, gera það á einhvern hátt auðveldara að loka fyrir, auðveldara að grípa inn í með einhverjum hætti án þess að fara í gegnum hið hefðbundna ferli sem fylgir til dæmis lögreglurannsókn.

Ég get nefnt dæmi. Ef upp á borð koma gögn sem sýna fram á eitthvert ofbeldisverk og efni sem við ætlum að stofna, segjum barnaklám eða eitthvað því um líkt, er ferli til staðar samkvæmt hugmyndinni um réttarríki sem er ætlað til þess að hægt sé að hefja rannsókn, rekja IP-tölur, fá leitarheimildir o.s.frv. Að reyna að eiga við höfundarétt með þessu móti mundi aldrei nokkurn tímann svara kostnaði. Þar liggur vandinn eða hluti vandans. Þess vegna fá menn hugmyndir eins og að setja lög sem eru kölluð DMCA í Bandaríkjunum, „Digital Millennium Copyright Act“, ég veit ekki til þess að það beri íslenskt heiti, virðulegi forseti, þar sem gert er auðveldara að tilkynna höfundaréttarbrot eða öllu heldur meint höfundaréttarbrot. Sambærileg klausa er í íslenskum lögum um að það sé nóg að um meint höfundaréttarbrot sé að ræða, þá er send tilkynning til viðkomandi þjónustuaðila og honum ber að loka á efnið þótt hann beri enga beina ábyrgð á því sjálfur, ef hann til dæmis bara hýsir það, við meint brot, ekki við sannað brot heldur meint brot. Þá er það þess sem á efnið að útskýra að hann eigi efnið og hafi heimilað birtingu þess.

Þetta er heldur öfugt á við það sem maður á jafnan að venjast í réttarríki, en þetta er gert svona vegna þess að þetta er það eina sem svarar kostnaði. Þar liggur vandinn. Eina leiðin til að framfylgja klassískum hugmyndum um höfundarétt er sú að snúa við sönnunarbyrði og veita heimildir til eftirlits og inngrips sem við mundum ellegar aldrei heimila. Þar liggur mótsögn klassískra hugmynda um höfundarétt við borgararéttindi og lýðræði.

Þessi frumvörp eru ekki alslæm en eins og ég sagði eiga þau það sameiginlegt að þau taka ekki tillit til þessa breytta raunveruleika. Þau sjá að heimurinn hefur breyst. Þau sjá að það þarf að gera eitthvað og vilja uppfæra skilgreiningar og skýra ýmsa hluti sem kannski þurftu áður ekkert að vera jafn skýrir en takast ekki á við grundvallarvandann sem er sömuleiðis fyrir samfélagið allt grundvallarblessun. Hún er sú að dreifing upplýsinga er orðin í meginatriðum ókeypis, ólíkt því sem áður var. Það kostaði áður teljandi vinnu og erfiði að dreifa upplýsingum, og hugverk eru ekkert annað en upplýsingar þegar upp er staðið, en núna er það í meginatriðum ókeypis. Það er ódýrara að framleiða þetta, a.m.k. mikið af þessu, það er vissulega auðveldara að dreifa þessu og það er erfiðara en nokkru sinni fyrr, reyndar ómögulegt í frjálsu samfélagi, að hafa einhverja stjórn á þessum upplýsingum.

Við getum ekki stjórnað upplýsingum án þess að stjórna upplýsingum. Til að sýna fram á kaldhæðnina sem í þessu felst minnist ég óafritanlegra geisladiska sem Sony setti á markað einhvern tímann þegar ég var táningur og menn hlógu að þessu, með réttu, vegna þess að hugmyndin var þessi: Við ætlum að taka tæki A sem er geislaspilarinn og tæki B sem er heyrnartólin og við ætlum að leyfa flutning af tæki A yfir á tæki B en hins vegar einhvern veginn að hindra að það fari frá tæki A yfir á eitthvert annað tæki B. Þetta er ekki hægt. Upplýsingar eru þess eðlis að með því að stjórna þeim þarf maður að stjórna þeim. Ef við stjórnum þeim ekki stjórnum við þeim ekki. Þetta er svo einfalt þegar á heildina er litið. Þar liggur vandinn, þetta er eðlisfræðilegt vandamál og þetta er vandamál sem við getum ekki látið eins og við getum leyst með hefðbundnum hætti nema illa fari. Við verðum að finna nýjar leiðir.

Nú á ég bara tvær mínútur eftir, því miður, en góðu fréttirnar eru þær að viðskiptamódelin eru að verða til. Markaðurinn er að finna nýjar lausnir á því hvernig hægt sé að virkja sköpunarkraft fólks og fá greitt fyrir það sem hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra. Við vorum bara ósammála um hvernig ætti að fara að því. Þetta er kannski einfaldast fyrir leikjaframleiðendur og hugbúnaðarframleiðendur vegna þess að þeir hafa fyrir löngu áttað sig á því að það er skynsamlegast að bjóða upp á einhverja þjónustu, t.d. að búa til leik eins og World of Warcraft eða Eve Online. Það mega allir dreifa leiknum, það skiptir engu máli, en til þess að spila með öðrum þarf að stimpla sig inn á ákveðna þjónustu og á þeirri þjónustu er hægt að hafa stjórn án þess að fylgjast með neinum eða hlera neinn. Það þarf engar slíkar aðferðir til að veita þjónustu nema einfaldlega að fá borgað.

Þetta er ekki það einfalt í öðrum greinum og það er misjafnt eftir greinum hvað hentar vel. Netflix og Spotify eru ágæt fyrstu skref, það er hins vegar það vandamál við þá þjónustu að hún borgar höfundunum sjálfum afskaplega lítið, ef nokkuð yfir höfuð. Það er vandamál sem við ættum frekar að einbeita okkur að, það hvernig okkur tekst að búa til lagaumgjörð sem gerir höfundum kleift að nota slíka þjónustu og fá greitt fyrir það af sanngirni án þess að þurfa að fara út í takmarkanir á upplýsingum. Í raun og veru er markaðurinn þannig að fólk er fullkomlega reiðubúið að borga fyrir vöru og þjónustu ef verðið er hóflegt og þjónustan er góð. Þetta sýnir sig aftur og aftur.

Ekkert hefur stöðvað svokallað ólöglegt niðurhal betur en Netflix og Spotify. Þótt sá sparnaður hafi vissulega ekki komist til höfunda, því miður, það er vandamál sem við eigum að einbeita okkur að því að laga, sýnir það fram á að baráttan gegn höfundaréttarbrotum felst ekki í því að góma þá sem brjóta á höfundarétti heldur veita þeim þjónustu sem þeir eru reiðubúnir að borga fyrir. Við vitum að það er hægt. Það er staðreynd, reynslan sýnir þetta.

Ég hef því miður ekki tíma fyrir meira, virðulegi forseti. (Forseti hringir.)

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.