144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[13:46]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að því sem hv. þingmaður nefndi síðast. Þróun viðskiptamódela sem eru til þess fallin að tryggja að eigendur að höfundaréttarvörðu efni fái til sín eðlilegar greiðslur er auðvitað það sem mestu skiptir. Það er hárrétt sem hv. þingmaður nefnir að það er í gegnum þá leið, ef við erum að horfa til slíkra leiða og slíkrar þróunar. Vandinn er kannski svolítið í núinu, meðan þetta er að gerast. Við sjáum það til dæmis í útgáfu á tónlist á Íslandi að þar hefur orðið verulegur samdráttur á undanförnum tveimur árum vegna þess að þau módel sem við erum að tala um eru ekki enn þá alveg komin.

Ég vil nefna varðandi breytingar og þá vinnu sem nú stendur yfir á vettvangi ESB að það er hárrétt sem hv. þingmaður segir, en það er einmitt hluti vandans, þetta mun alltaf standa svona yfir. Ef við ætlum okkur að bíða þangað til þeir klára og gera eitthvað þá, þá væri strax komin af stað önnur vinna hjá þeim. Ég held að við verðum að taka þau skref sem við teljum nauðsynleg núna og halda svo áfram að fylgjast með þróuninni. Tilgangur þessara frumvarpa er meðal annars sá að tengja saman og færa betur til lagaverk okkar þannig að samrýmist til dæmis því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum.

Hvað varðar það frumvarp nr. 701 sem snýr að tíma eða gildistíma og verndartímanum á höfundaréttarverkunum er rétt að hafa í huga, af því við erum að ræða t.d. Evrópu og Evrópusambandið, að hér er um að ræða innleiðingu á tilskipun frá Evrópuþinginu nr. 77 frá 2011, þannig að við erum raunverulega aðeins að innleiða það kerfi sem hefur verið tekið upp í Evrópu. Það liggur fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA fylgist með þessu máli af því fresturinn til innleiðingar er liðinn. Ég nefndi það í framsögu minni að þetta mál stæði þannig. Það þýðir ekki að afgreiða þurfi öll málin einn, tveir og þrír til þess að bregðast við því, það væri nóg að þannig væri með þetta mál. Þarna er einungis um innleiðingu á tilskipun að ræða.

Síðan vil ég segja hitt, af því hv. þingmaður gerði mun á fyrirtækjum og einstaklingum, (Forseti hringir.) að ég skil það vel. En það má ekki gleyma því að bak við fyrirtæki eru einstaklingar og þeir njóta verndar sem slíkir. Oft horfum við á stóru fyrirtækin, en það er þannig að áður en þessi fyrirtæki verða stór (Forseti hringir.) þá byrja þau mjög oft á því að vera lítil (Forseti hringir.) og við hljótum að vernda þá þróun, þ.e. einstaklinga sem eiga þau fyrirtæki.