144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[13:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tímaskorturinn er strax farinn ná í skottið á okkur. Það er rétt að það er samdráttur í útgáfu á tónlist á Íslandi, öllu heldur í sölu á tónlist. Hins vegar hafa íslenskir tónlistarmenn notið mikillar velgengni upp á síðkastið. Það er eitt af þeim mynstrum sem við sjáum, þrátt fyrir allt er meiri frábær tónlist að verða til og hún er að verða vinsælli og hún nær víðar á sama tíma og vandamál steðja að gagnvart dreifingu og sölu. Það sem er svo mikilvægt að hafa í huga er að þar eru líka að verða til önnur viðskiptamódel, sem eru í sífelldri þróun og er ekki komið á hreint hvernig verða.

Mig langar sérstaklega að nefna tvö þeirra. Það er annars vegar að sumir tónlistarmenn geta gefið tónlistina sína, reynt að dreifa henni sem víðast og halað inn tekjur á tónleikum, vegna þess að það er líka aukin sókn í tónleika. Það eru margar kenningar fyrir því. Ein er sú að fólk hafi einfaldlega meira á milli handanna vegna þess að það hleður efninu miklu ódýrara niður, en peningurinn fer þess í stað í tónleika. Ég legg til að það sé skemmtileg þróun. Það er miklu meira lifandi þróun, eins og var í gamla daga. Þegar plöturnar komu höfðu menn áhyggjur af því að nú mundi enginn fara á tónleika lengur. Það er alveg tækifæri til að snúa þeirri þróun við fyrir þá sem sakna hennar.

Þetta er eitt módel sem sumir geta nýtt sér. Það fer þó eftir stöðu listamannsins, einn getur það en annar ekki endilega. Þá ber líka að nefna varðandi þetta módel að þeir tónlistarmenn sem geta nýtt sér það taka í raun hlustunarmarkaðinn frá þeim sem geta það ekki. Þetta býr því líka til einhver ný vandamál, þess vegna er þetta sífellt í gerjun.

Annað gott dæmi um nýtt módel sem þarf að reyna betur er þegar ákveðin hljómsveit á Íslandi ákvað að gera það sem kallað er á ensku „crowdfunding“, þ.e. að fjöldafjármagna framleiðslu á geisladisk. Þeir fengu þrisvar sinnum meira en þeir báðu um, fengu fyrir fram borgað, fengu meira en þeir ætluðust til og gátu framleitt diskinn. Svo er auðvitað lengri saga á bak við það sem ég hef því miður ekki tíma fyrir. En það eru ný (Forseti hringir.) módel í gangi í tónlist. Við þurfum að leyfa þeim að njóta sín.