144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[13:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég er í hópi þeirra sem telja mikilvægt að standa vörð um höfundarétt listamanna og tryggja skapandi greinum starfsumhverfi sitt. Það er auðvitað ekki aðeins spurning um hvernig kökunni er skipt heldur líka spurning um að útfæra það með þeim hætti að hún verði sem stærst, það sem til skiptanna er. Í því eru mörg flókin álitaefni og gott að hafa jafn fróðan mann um það og hv. þingmann. Ég er viss um ef við hefðum sérstakt ráðherraembætti alnetsins eða alnetsráðherra hugsuðu menn sig ekki um tvisvar um þegar þeir tilnefndu þingmann í það verkefni, því að þingmaðurinn býr að mikilvægri þekkingu á því sviði.

Ég vil spyrja hann í upphafi hvort hann telji ekki að þau flóknu álitaefni sem hann fór yfir séu af þeirri stærðargráðu að þessi frumvörp séu í raun of seint fram komin á þessu þingi til að takast megi að vinna einhverja skaplega vinnu með þau í þinglegri meðferð og ljúka þeim eftir fjórar, fimm vikur, eins og starfsáætlun þingsins gerir ráð fyrir. Telur hann ekki að gera þurfi ráð fyrir því í þessari umferð í aðalatriðum að þetta sé fyrst og fremst að fara út til umsagnar og að þeir aðilar sem þurfa að rýna málið og koma inn með sjónarmið og ábendingar þar um fái þennan tíma til þess og síðan sé eðlilegt að málið sé tekið upp að nýju að hausti, alla vega meginatriðið þess, og reynt að vanda vel til útfærslunnar á þeim flóknu álitaefnum sem þingmaðurinn fór yfir í ræðu sinni?