144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það þannig að ég mundi vilja að sem mest vinna yrði unnin á sem skemmstum tíma, en það þarf að vanda til verka og þá er mikilvægt að við fáum þann tíma sem við þurfum til að ljúka vinnunni.

Hv. þingmaður nefnir réttilega að notkun geti leitt af sér meiri notkun. Það er einmitt það sem gerir hugverkaiðnað og eðli upplýsinga almennt frábrugðið viðskiptum með vörur sem eru búnar til úr föstum hlutum. Þegar maður býr til hugverk einu sinni, ég er forritari og tónlistarmaður sjálfur þannig að ég veit alveg hvað það er að búa til hugverk, er maður búinn að búa það til og fjöldaframleiðsluferlið er í grundvallaratriðum ókeypis núna á 21. öldinni. Í því felst ekki endilega réttlæting á því að afrita það endalaust, heldur ábending um að það er í grundvallaratriðum frábrugðið því að baka 100 milljónir brauða og spila 100 milljónir laga. Það er grundvallarmunur á því hvernig þessi þjónusta er veitt og þar af leiðandi er alveg eðlilegt að grundvallarmunur sé á þeim viðskiptamódelum sem eru notuð til að styðja við slíka framleiðslu og tryggja að allir fái borgað fyrir vinnu sína, sem er það sem við viljum öll.

Hv. þingmaður nefnir að þróunin megi ekki verða til þess að skaða hagsmuni listamanna. Það er tvennt í því. Við þurfum þá að vita hvernig við tryggjum hagsmuni listamanna sem best. Hagsmunir listamanna felast ekki endilega í því að þessi tiltekna útfærsla sé við lýði. Það er heili punkturinn. Það eru ekki hagsmunir listamanna að þverskallast við að hafa ævaforna hugmynd um það hvernig höfundaréttur virkaði fyrir 100 eða 200 árum, eða jafnvel 30 árum, í umhverfi sem einfaldlega byggir ekki á sömu grundvallareðlisfræði, eða ekki eðlisfræði heldur grundvallarlögmálum í dreifingu og framleiðsluferlinu.

Það eru allir sammála hér um að vilja tryggja hagsmuni listamanna sem best. Ég er forritari. Pabbi minn er hljóðmaður. Mamma mín er kvikmyndagerðarmaður. Ég kann að búa til tónlist. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir er ljóðskáld. Við búum til hugverk. Við viljum að þetta sé í lagi. En útfærslan þarf að vera skynsamleg.