144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Veruleikinn er nú sá að það eru samt einhverjir listamenn svo lánsamir að hafa fengið listamannalaun en auðvitað væri það ekki gott ef ríkisrekstur væri á listgreinum, enda mundi það þýða að listamenn væru þá örugglega ekki eins hugrakkir að segja og gera það sem þarf til að veita yfirvöldum aðhald.

Ég er alveg meðvituð um að þetta er ekki heildrænt, heildræn lagasetning. Það sem mig langaði að spyrja ráðherrann um í tengslum við málið, sem við erum komin eftir á með, hvernig það sé, getum við komið með róttækar breytingartillögur án þess að verða rekin til baka með þær, eða hvernig er það? Eða pragmatískar breytingartillögur skulum við frekar segja, því að róttækni er nú frekar pragmatísk í eðli sínu.

Síðan langar mig að spyrja af því að ég er alveg sérstakur áhugamaður um Bernarsáttmálann sem er svo sannarlega barn síns tíma. Mig langar að spyrja og skora á hæstv. menntamálaráðherra þegar hann er búinn að ná að taka þessi mál úr sínum höndum hvort hann væri ekki tilbúinn að beita sér fyrir því að þau verði nútímavædd. Eins og kom fram í ræðu minni hefur þessum lögum ekki verið breytt síðan 1975 og þetta er ekki sami heimur, þetta er nánast eins og við værum flutt á Mars. Bernarsáttmálinn stendur okkur mjög fyrir þrifum og er mjög erfiður viðureignar af því að hann stoppar ákveðna framþróun varðandi höfundarétt.