144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að því sem ég komst ekki yfir áðan sem hv. þingmaður ræddi um, þ.e. milliliðina og vernd þeirra. Það sem verið er að leggja til í frumvarpinu er að tryggt verði að þegar til einhverra úrræða er gripið þá séu þeir látnir vita, að gerð sé tilraun til að hafa samband við forsvarsmenn slíkra fyrirtækja eða aðila, þannig að þeir geti haldið uppi vörnum. Ef þeir finnast ekki þá er það auðvitað ný staða. Síðan hef ég sagt, ég tók það fram í framsöguræðu minni og hef sagt það á opinberum vettvangi áður, að ég er þeirrar skoðunar að ef kemur til þess að einhvers konar lokanir séu á þjónustu sé eðlilegt að dómsúrskurður liggi fyrir um slíkt. Mér finnst ekki fara vel á því og það býður hættunni heim að opinberir embættismenn eða sýslumenn taki slíkar ákvarðanir, ég held að betra sé að það fari dómstólaleiðina.

Síðan hvað varðar, rétt örstutt, listamennina svo að því sé lokað. Ég heyri að hv. þingmaður er mér alveg sammála um að það væri mjög óæskileg þróun fyrir listina, fyrir einmitt hið gagnrýna hlutverk listamannanna og annað slíkt, ef þróunin yrði sú að það yrði bara ríkið í ríkari mæli sem þyrfti að koma með fjármuni til að standa undir eða hjálpa listamönnunum að lifa vegna þess að tekjumódelin eru ekki komin eða þá að þau þróist þannig, sem getur líka verið hætta, að listamenn fái lítið fyrir sinn hlut, það verði einmitt stór dreifingarfyrirtæki með öðrum hætti en áður var sem nái til sín rentum. Það er ákveðið áhyggjuefni.

Síðan hvað varðar þann sáttmála sem kenndur er við Bern og hv. þingmaður nefndi, ég er alveg tilbúinn til að skoða þau mál og vænti þá þess að fá ágætar leiðbeiningar frá hv. þingmanni um þau mál sem ég veit að þekkir þetta mjög vel.