144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:32]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og hlakka til að fá nánari upplýsingar og leiðsögn um það hvernig við getum tekið þetta mál fyrir. Ég held að það sé ljóst af því sem komið hefur fram í umræðunni að málinu verður ekki kastað í gegnum þingið á skömmum tíma. Það þarf mikla umræðu og kannski ekki síst um hvað við erum tilbúin að innleiða af nýjum hugmyndum. Hvað er það í ytri lagaramma sem bindur okkur þar?

Það eru nokkur atriði sem er spennandi að skoða líka sem tengjast þessu þó að með öðrum hætti sé, t.d. varðveislu á útgefnu efni. Nú hafa menn haft tilhneigingu til að reyna að varðveita útgefið efni, allar útgáfur á að geyma í ákveðnum fjölda eintaka og fara með inn á Þjóðskjalasafn. Hvað með allt það efni sem er að skapast á netinu og er eingöngu þar? Það eru vangaveltur um það. Ég deili þeirri skoðun sem kom áðan fram hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni varðandi lengingu á höfundarétti, ég sé ekki rökin fyrir því í nútímaumhverfi að það sé lengt upp í 70 ár eftir andlát. Síðan eru það viðurlög við brotum sem maður þarf aðeins að átta sig á. Ef við erum með lög og reglur þurfa að vera einhver viðurlög. Hvernig á að bregðast við brotum? Hvernig búum við til umgjörð í kringum það?

En það er eitt hugtak þarna sem er svolítið skemmtilegt og ég held að ég sé búinn að skilja það þegar ég var búinn að lesa frumvarpið að hluta, það er „munaðarlaus verk“. Það er tekið fram að frumvarpið nái til almenningsbókasafna, menntastofnana, safna, skjalasafna, varðveislustofnana kvikmynda og hljóðrita, en það kemur þarna í lokin í upptalningunni, með leyfi forseta, „og útvarpsstöðva sem veita opinbera þjónustu, sem eru stofnsett á Evrópska efnahagssvæðinu“. Sjáið þið fyrir ykkur hvað þetta þýðir? Þýðir þetta bara Ríkisútvarpið? Hvað þýðir þetta fyrir allar hinar útvarpsstöðvarnar, gegna þær opinberri þjónustu? Það er svolítið skemmtilegt viðfangsefni til að finna skilgreininguna á þessu. Ég get ekki veitt hana sjálfur þannig að ég kasta þessari spurningu fram til hv. þingmanns og kannski fyrst og fremst til ráðherra, hvort hann geti svarað þessu og við fáum skýringar á því hvað átt er við. Þarna er allt Evrópusambandið undir. (Forseti hringir.) Er þarna bara átt við BBC eða hvað? Þetta lýsir náttúrlega ástandinu mjög vel og í hvaða umhverfi við erum.