144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil eiga orðastað við hv. þingmann um atriði sem hún nefndi sem mér fannst áhugavert, sem er hlutverk milliliðanna, t.d. í dreifingu á tónlist. Það hefur oft verið réttilega nefnt hér að sú tækni sem við búum nú yfir eða er til staðar geri það að verkum að leiðir sem áður voru útilokaðar fyrir tónlistarmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref til að koma sínu efni á framfæri séu allt aðrar en áður var þegar menn þurftu að fá samning við plötufyrirtækin. Á sama tíma má líka gera ráð fyrir því að kunnáttan sem þarf til að kunna á þær dreifileiðir sem eru til staðar geti orðið sérhæfðari eftir því sem tíminn líður. Þá er ég ekki bara að hugsa út í þá tónlistarmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref, heldur þá sem eru komnir af stað með sinn feril. Eitt er að vera góður tónlistarmaður, annaðhvort lagahöfundur eða spila á hljóðfæri, og annað að hafa þekkingu og kunnáttu á þeim leiðum sem standa til boða hvað varðar dreifingu.

Getum við þá ekki alveg eins átt von því að það verði aftur sama gamla þróunin og að útgáfufyrirtækin, bara í annarri mynd, verði þarna á milli? Þá kemur aftur upp það sem við höfum rætt hérna áður: Hvernig tryggjum að afraksturinn renni ekki bara til þeirra sem reka þau fyrirtæki eins og við sjáum gerast núna í kringum fyrirtæki eins og Spotify heldur fari sanngjarn hlutur til þeirra listamanna sem selja kunnáttu sína og getu?

Svo vildi ég líka nefna varðandi ungt fólk og höfundaréttindin að það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að það eru að verða breytingar á því umhverfi sem snýr að dreifingu á höfundaréttarvörðu efni, en sú hugsun er samt sem áður undirliggjandi að listamaðurinn (Forseti hringir.) eða höfundurinn, sem búa til efni, hafi rétt. Þótt hann kunni að breytast að breyttu breytanda (Forseti hringir.) þá er það samt sem áður þannig að slíkur réttur þarf að vera að vera til staðar og tryggja þarf að til dæmis ungt fólk hafi skilning á þeim rétti.