144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá líflegu og yfirgripsmiklu umræðu sem á sér stað. Mig langaði að spyrja hv. þingmann aðeins út í hlutverk milliliðanna sem hann og hæstv. ráðherra hafa verið að ræða hérna. Það hefur jú verið þannig í gegnum tíðina, alla vega í tónlistargeiranum, að menn hafa stundum kennt milliliðnum um, þ.e. útgáfufyrirtækjunum, í fyrsta lagi fyrir að stjórna markaðnum með því að stjórna því hverjir fái samning, hverjir séu þess virði að mega gefa út, og sagan segir að þeir hafi hirt mestan hagnaðinn enda komu þessir aðilar til leiks þegar markaðurinn var þannig byggður upp að það þurfti mikla vinnu til þess að dreifa efni, það þurfti raunverulegt efni, geisladiska, plötur og kassettur, það var efniskostnaður, það þurfti sérþekkingu og auðvitað aðgang að markaðnum. Þetta er í mínum huga einkenni þess að tæknin á þessum tíma bauð ekki upp á upplýsingadreifingu í sama mæli og nú.

Nú höfum við áhyggjur af þessum milliliðum, þ.e. að þeir öðlist sömu stöðu og fari að stjórna markaðnum. Ég mundi í fyrsta lagi leggja til við hv. þingmann að slík stjórn yrði aldrei meiri en sem nemur sérþekkingu þeirra aðila, að því gefnu að internetið sé áfram frjálst og opið og hver sem er geti gripið inn í markaðinn, aflað sér þessarar þekkingar. Sem dæmi þá lærði ég að forrita á netinu vegna þess að það er ókeypis og það er hægt að þjálfa sig heima hjá sér og menn gera það. Það er auðvitað líka hægt að fara í skóla, en það er engin nauðsyn. Ég þurfti ekki að spyrja neinn um leyfi til þess að læra forritun, ég bara gerði það. Ég mundi búast við því að dreifingaraðilar á netinu gætu öðlast þessa þekkingu á markaðnum á eigin spýtur.

Þar sem þetta fór út í spurninguna um kapítalisma og svoleiðis þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Er í sjálfu sér nokkuð að því að milliliðurinn fái greitt svo lengi sem hann fær greitt fyrir (Forseti hringir.) raunverulega þjónustu, (JÞÓ: Í samkeppnisumhverfi.) fyrir að veita einhver raunveruleg (Forseti hringir.) verðmæti í samkeppnisumhverfi?