144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[15:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessa athugasemd sem mér finnst mjög góð. Hún tengist öðru málefni sem ég hef verið mjög áhugasöm um og lýtur að þætti menntakerfisins í breyttum heimi, þ.e. sú staðreynd að meiri þekking en nokkru sinni fyrr er aðgengileg á engum tíma með því að gúgla en sú sögn er orðin föst í íslensku máli, maður gúglar bara og sumir gúgla ekki nógu vel en allir kunna það.

Það sem ég tel mjög mikilvægt að við gerum innan menntakerfisins er að þjálfa ungu kynslóðina upp í að gera greinarmun á hvaða upplýsingum beri að taka mark á, hvaða heimildir séu traustsins verðar, að það sé ekki endilega allt satt sem stendur á netinu. Það er a.m.k. að einhverju leyti reynsla mín því að þegar netið var að verða almenn þekkingarveita ungs fólks og ég var enn að kenna þá tók fólk það nánast þannig að af því það var á netinu þá hlaut það að vera sannleikur. Eitt af því sem skiptir máli meira en nokkru sinni fyrr er upplýsingalæsi. Ein af forsendunum í nýrri aðalnámsskrá, sem við vorum að vinna þegar ég var í ráðuneyti mennta- og menningarmála, var einmitt að horfa á læsi út frá hinum víða skilningi. Það skiptir svo miklu máli að fólk sé fært um að gera greinarmun á ólíkum upplýsingum. Það tengist kannski líka þessu með höfundaréttinn, þ.e. að við áttum okkur á því og gerum okkur grein fyrir því að sumt efni á netinu er hugsanlega höfundaréttarvarið. Við nýtum þetta öll eins og hv. þingmaður bendir á og það getur verið mjög erfitt að átta sig á því hvenær efni er undir höfundarétti.

Ég beitti mér fyrir því á sínum tíma, til að mynda á vettvangi vísindamála, að rannsóknir og vísindi sem eru styrktar af opinberu fé væru öllum aðgengilegar. Það er hluti af því sem Rannís hefur verið að gera þegar opinberir rannsóknarstyrkir eru veittir. Þá er líka veittur styrkur til þess að tryggja birtingu niðurstaðnanna í opnu aðgengi fyrir alla. Það hlýtur að vera eðli þeirra rannsókna (Forseti hringir.) sem við styrkjum með opinberu fé að þær séu öllum aðgengilegar og (Forseti hringir.) birtar sem slíkar. Það er auðvitað stefnan sem við eigum að taka þegar við horfum á hluti sem almenningur greiðir í raun (Forseti hringir.) og veru fyrir.