144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[15:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum mjög á sömu síðu, ég og hv. þingmaður, hvað varðar að það eru einmitt markaðurinn og markaðsöflin sem leysa svona viðfangsefni og því flóknari sem þau eru því mikilvægara er að markaðurinn hafi fullt svigrúm til að leysa þau, að virkja hugmyndir og þekkingu milljóna manna til þess að leysa slík vandamál. Þau verða ekki leyst að ofan, lausnin kemur frá markaðnum sjálfum.

Það sem hér er um að ræða, sem hv. þingmaður nefndi og mér finnst áhugavert, er tíminn sem líður frá því að tæknibreytingarnar eiga sér stað, eru orðnar virkar ef svo má að orði komast, þar til módelin eru komin. Við þekkjum það frá öðrum stórum tæknibyltingum, t.d. eins og þegar rafmagnið kom. Allar hagtölur sýna að það leið dálítið langur tími, ef ég man rétt einhverjir áratugir, frá því að tæknin varð til og þar til við sáum afleiðingar hennar í bættri framleiðslu og efnahagsbata, meiri framleiðni, vegna þess að framleiðsluferlarnir og verksmiðjurnar o.s.frv. voru þá breyttar og byggðar upp á grundvelli þessarar nýju tækni. Það sama er auðvitað að gerast hjá okkur núna, við erum á þeim tíma þar sem sú tilfærsla á sér stað. Það þýðir að það er ákveðinn vandi uppi fyrir þá listamenn sem nú starfa.

Ég er ekki alveg viss um að myndin eins og hv. þingmaður lýsti frá Bretlandi sé endilega alveg eins hjá okkur, á okkar litla markaði. En þetta hefur verið skoðað varðandi niðurhalið á tónlist á Íslandi og það hefur minnkað vegna þess að þessi módel eru komin. Ég er algjörlega sammála þingmanninum að stíga þarf varlega til jarðar.

Mitt mat er að ekkert í þeim frumvörpum sem við erum að ræða valdi neinum skaða hvað það varðar, en það er mjög nauðsynlegt að hv. nefnd sem fer með málið skoði það út frá þeim sjónarmiðum sem við erum að ræða, þannig að þarna sé ekkert sem geri það að verkum að við festum okkur einhvers staðar eða drögum úr möguleikum markaðarins til að koma fram með nýju módelin. Hugsunin í frumvörpunum er einmitt sú að skerpa á og skýra. Það er líka nauðsynlegur grundvöllur (Forseti hringir.) fyrir markaðinn til að vinna með að það sé skýr löggjöf. (Forseti hringir.) Það er alltaf miklu erfiðara fyrir markaðinn að vinna í lagaóvissu.