144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[15:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Alltaf þegar svona „destruction“ eða bylting verður í iðnaði þýðir það óþægindi, það þýðir að menn þurfa að finna ný viðskiptalíkön o.s.frv. Það hefur gerst í öllum tæknibyltingum. Skilgreiningin á byltingunni er að þetta gerist svo hratt, það er byltingin, breytingin verður svo ofboðslega hröð. Stóru framleiðendunum tekst enn þá að fjármagna sig vel en þeir, eins og hv. þingmaður nefndi, sem maður hefur kannski hvað sterkastar taugar til eða samúð með eru einmitt þessir litlu eða milliaðilar.

Eins og ég nefndi í ræðu minni að þegar kemur að myndefnisframleiðslu þá eru þeir ekki alveg búnir að finna leiðina þar en menn eru byrjaðir. Eitt er náttúrlega það að samhliða þessari tækniþróun hefur kostnaðurinn farið niður, kostnaðurinn á græjunum, tökugræjum o.s.frv. Annað er það að menn eru byrjaðir að nota Kickstarter, til dæmis var Iron Sky, minnir mig, fjármögnuð með Kickstarter. Menn eru byrjaðir að senda út „teaser-trailer“ á Kickstarter þar sem þeir byrja að gera ódýran „trailer“ á myndinni eins og svona „highlights show“, það ferli sem hefur verið notað varðandi framleiðslu á þáttaröðum, þá búa menn til fyrst einn þátt og svo reyna menn að selja hann. Menn eru byrjaðir að gera þetta með kvikmyndir, að búa til trailerinn á kvikmyndinni fyrst, sjá hverjir hafa áhuga á því að fjármagna slíkt. Leysir þetta vandamál íslenskra kvikmyndagerðarframleiðenda núna? Ég veit það ekki. Að einhverju takmörkuðu leyti. Það er klárlega hópur sem kemur ekki vel út úr þessari stöðu núna, en menn munu finna lausn á þessu. Ég mun ekki finna allar lausnir á þessu, klárlega ekki. Ég fylgist bara með hvað er í gangi núna og hvað hefur verið að virka og hvernig þróunin er. Þróunin er öll í þá áttina að menn eru að finna nýjar leiðir við að fjármagna hlutina og nýjar leiðir við að framleiða hlutina með ódýrari hætti og nýjar leiðir til að fá greitt fyrir myndefnið þrátt fyrir að það sé aðgengilegt ólöglega á internetinu.