144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[15:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé — og nú beini ég orðum til virðulegs forseta — að hv. þingmaður og píratar fá alveg sérmeðferð. Ég hef verið ávíttur hér fyrir að segja Daily Telegraph í ræðustól og iðulega þegar kemur rautt ljós hjá mér þá byrjar bjallan. Hv. þingmaður talaði varla íslensku. Það var eitt og eitt orð sem var íslenskt og fór lengst rautt og það hreyfði ekki við hæstv. forseta. En það er svona, sumt er ójafnt.

Það er auðvitað mjög æskilegt, gott og vel, að menn geti fundið einhverjar lausnir og við vonum að svo verði. En mér finnst það hins vegar skipta máli að við gefum þau skilaboð að það sé ekki í lagi að hlaða niður verkum, við getum ekki greint á milli hvort framleiðandinn er ríkur eða fátækur, góður eða slæmur, það er auðvitað ekki rétt. Það skiptir máli að við gefum þau skilaboð til ungmenna okkar og til allra að ekki sé rétt að gera það með þeim hætti. Ég vil vita hvort hv. þingmaður er ekki sammála mér í því.

Það er eins og með tölvuleikina, það eru margar leiðir í því. Í þessu tilfelli er það þannig, svo við tölum um það, ég veit mörg dæmi þess að menn leggja aleigu sína í að búa til myndir og annað slíkt og ekki má mikið út af að bregða til að illa fari. Það fer náttúrlega illa ef fólki finnst sjálfsagt að ná í þessa vöru, þessa framleiðslu, án þess að borga fyrir hana. Það er algerlega augljóst. Og þó að fyrirtæki séu stór þá vinnur margt fólk hjá þeim sem á mikið undir þegar svo er, mér finnst það líka skipta máli. Ég veit ekki hver er besta lausnin en auðvitað er það þannig að frjálsi markaðurinn og tækniþróunin leysir margan vanda, en við verðum hins vegar að gefa þau skilaboð að þetta sé ekki í lagi. Það er auðvitað ekki í lagi að taka þessa hluti frá listamönnunum og framleiðendunum, þetta er þeirra vinna, það þurfa ekki að vera listamenn, það getur bara verið venjulegur einstaklingur.