144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[15:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Það skiptir ofboðslega litlu máli hvað ég predika eða hv. þingmaður predikar um það hvað ekki sé í lagi með þessi atriði. Hvenær heldur hv. þingmaður að það hafi virkað að segja slíkt við fólk? Ég skal bara benda á sálfræðina, ég skal segja hvers vegna ég held að það skipti engu máli. Menn eru búnir að reyna þetta, menn eru búnir að reyna að predika þetta en það hefur ekki virkað. Það sem virkar aftur á móti eru ný viðskiptamódel eins og ég hef verið að nefna hérna, það virkar. Við getum öskrað okkur hás yfir því hvað þetta sé ósiðlegt. Það breytir ekki málinu. Rannsókn var gerð eftir hrunið þar sem menn voru svona hissa á því hvernig menn gátu verið að versla með pappíra og í rauninni vitandi að þeir væru að svindla og selja fólki ónýta pappíra, hvernig þetta allt saman gat gerst. Niðurstaðan varð sú — þeir fengu fólk til þess að gera próf — að eftir því sem þeir gerðu það hraðar þá fékk það sem mest borgað. Ef fólk fékk borgað peninga beint þá var það ólíklegra til að svindla. Ef það fékk borgað í formi miða sem það gat svo farið með á næsta borð og skipt fyrir peninga þá var það líklegra til að svindla. Það sem kom líka út úr þessu var að fólk er líklegra til að svindla lítið, svona smá, það er bara mannlegt eðli. Sama hvað við hv. þingmenn hérna öskrum yfir því hvað það sé skammarlegt mun það ekki breyta því. Það var mjög skýr rannsókn sem var gerð. Þetta er mannlegt eðli. Og menn eru líka tilbúnir að svindla ef samfélagið er að svindla.

Ég held því (Gripið fram í: Nákvæmlega.) að það sem við eigum að einbeita okkur að — eigum við að einbeita okkur að því að öskra okkur hása um hvað þetta sé ósiðlegt? Ég held að það skili ekki árangri. Ég nenni ekki að gera hluti sem skila ekki árangri. Það sem skilar árangri er að beina fólki inn á þær leiðir sem virka. Við píratar höfum verið mjög duglegir við það að benda fólki inn á Netflix þar sem það getur greitt (Forseti hringir.) fyrir þetta, benda fólki á Spotify (Forseti hringir.) þar sem það getur greitt fyrir í staðinn fyrir að öskra yfir því hvað er vont. Reynum að færa fólki það sem er gott, það sem virkar og það sem skilar árangri.