144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[15:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, það hefur verið gagn að þessari umræðu í dag, klárlega. En varðandi framtíðina og að taka saman mál er eitthvað sem á heima á þingflokksformannafundi þar sem menn ræða um dagskrá og svoleiðis, hæstv. ráðherra er sammála því að það er ferlið inn í framtíðina.

Varðandi þessi þrjú mál. Um munaðarlaus verk þarf klárlega að finna lausn. En kannski er þetta ekki besta lausnin. Kannski er til betri lausn. Hvers vegna þá ekki að nýta tækifærið?

Varðandi lengd verndartíma hljóðrita, færa 50 ár eftir dauða höfundar til 70, ég er búinn að nefna það, þetta er náttúrlega bara „corporatismi“, þetta er Walt Disney, hvenær hann dó plús eitt ár, þannig þrýsta menn alltaf á það.

Varðandi einkaréttindi höfunda, samningskvaðir. Það er rosalega stórt mál. Ef það er á einhverjum forsendum hægt að tryggja samningsstöðu listamanna gagnvart þessum stóru efnisveitum sem menn eru kannski að átta sig svolítið betur og betur á — jú, við þurfum að hafa það á einhverjum forsendum, mjög gott að hafa það á einhverjum forsendum, en stóra vandamálið er að milliliðirnir eru enn þá, gömlu milliliðirnir eru enn þá inni í þessari „lúppu“. Þeir eru að hirða megnið af hagnaðinum. Það leysist náttúrlega ekkert. Þeir eiga auðvitað höfundaréttinn. Og til hve langs tíma þá? Jú, 50 ár, nú er verið að hækka það upp í 70 ár frá dauða höfundar og allt það, skiljið þið. Nei, ég er kannski að rugla þarna, en ókei. Það þarf að fara mjög varlega hvað þetta varðar.

En um íslenskan tónlistariðnað. Hvernig eru þessi frumvörp sérstaklega að aðstoða til við það? Ef það er eitthvað bil sem er klárlega til staðar þar til nýju viðskiptamódelin byrja að virka betur og betur fyrir listamenn á Íslandi, ætti inngripið þá að vera þessi lög? Er það málið eða kannski einhver fjárframlög frá ríkinu til að (Forseti hringir.) brúa bilið, eða hvað?