144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[15:46]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi um þau lög sem snúa að lengdinni, þar erum við að fást við Evróputilskipun, þannig að svigrúm okkar í því máli er afskaplega takmarkað. Við erum á innri markaðnum. Þetta er hluti af því fyrirkomulagi. Það er rétt að hafa það í huga.

Síðan hvað varðar íslenska tónlistariðnaðinn og breytingar í þessum frumvörpum fyrir utan það sem felst í verðandi verndartíma á þessum hugverkum þá er ég ekki viss um að það séu stórkostlegar breytingar, alla vega hvað varðar tekjumöguleika eða þróun tekjumódelanna. Það er mitt mat alla vega að það sé ekki neitt sem breyti stórkostlegu hér, það er kannski meira þau ákvæði um samningskvaðirnar sem breyta hvað varðar aðgengi og svo líka um munaðarlaus verk svona almennt, að verið er að skýra þetta og auðvelda. Með því er verið að auðvelda aðgengi að efni og þar með líka notkun á því. Það er grundvallarhugsunin í þessum frumvörpum ásamt því að leggja upp með það sem skiptir máli hvað varðar samræmi við lög nágrannaþjóða okkar eins og Norðurlandanna á þessu sviði. Það var það sem lagt var upp með í þeim leiðarljósum sem fyrrverandi hæstv. ráðherra, Katrín Jakobsdóttir, lagði upp með þegar þessi vinna hófst, að þess væri gætt einmitt að eðlilegt samtal eða samhengi væri á milli réttarins hér og réttarins í nágrannalöndunum.