144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[15:49]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að svo sé ekki með þessum frumvörpum, þvert á móti, menn hafa fullan rétt til að segja sig frá. Ég held að listamenn hvað varðar þennan þáttinn séu varðir líka í öðrum lögum um samningsfrelsi almennt. Ég held að þær hugleiðingar sem hv. þingmaður hafði hér uppi séu góðra gjalda verðar og reyndar alveg nauðsynlegar og nauðsynlegt er að fara yfir þessa þætti mjög vel í meðförum nefndarinnar. Ég tek sem dæmi munaðarlaus verk. Um leið og búinn er til rammi utan um það hvernig skuli fara með slík verk, þ.e. hvernig menn finna út hvort þau séu munaðarlaus í raun og veru og síðan í framhaldinu, sem er ekki síður mikilvægt, hvernig fer með slík verk ef höfundur kemur í ljós, þá sé alveg skýrt og tryggt að höfundurinn hafi rétt og geti fengið sitt verk aftur í hendurnar og fengið eðlilegar bætur fyrir það sem verkið hefur verið nýtt til o.s.frv. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að hin almennu sjónarmið um frelsi manna til samninga hljóta alltaf að vera undirliggjandi hvað sem öllu öðru líður. Og það hefur reyndar komið fram í umræðunni mikilvægi þess að horfa til þessara laga og síðan til annarra laga sem snúa að svipuðum réttindum manna. Þetta þarf auðvitað allt saman að fara vel saman. Þess vegna unnum við þetta svona og reyndum að vanda okkur vel við það í ráðuneytinu eins og auðvitað allt annað, og þetta hefur farið einmitt út til umsagnar og kynningu á netinu til þess að kalla eftir öllum sjónarmiðum. Við vildum fá sem mest inn til að geta tekið afstöðu til þess áður en við legðum það fram til þingsins.

Ég ítreka að ég geri mér grein fyrir því flækjustigi sem hér er, ég geri mér grein fyrir þeim tíma sem þetta mun auðvitað taka eðli málsins samkvæmt. Ég bara minni á að eitt af þessum frumvörpum er — þau eru tvö sem snúa að innleiðingu tilskipunar frá Evrópu, en önnur tilskipun er löngu komin fram yfir tíma hjá okkur.