144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

byggðaáætlun og sóknaráætlanir.

693. mál
[15:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir sem er þskj. 1167, mál 693. Byggðaáætlun hefur að markmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sóknaráætlanir eru hins vegar stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshutasamtaka sveitarfélaga og fela í sér stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum.

Frumvarp þetta fjallar um stöðu og innihald þessara áætlana, samspil þeirra innbyrðis og tengsl við aðra opinbera áætlanagerð. Með frumvarpinu er verið að formgera verklag sem hefur verið í mótun frá árinu 2011 og skilgreina samspil og tengsl byggðaáætlunar og sóknaráætlana landshluta. Mikilvægt markmið er að festa í sessi hlutverk Byggðastofnunar sem eftirlits- og umsýsluaðila og um leið formfesta verklag við gerð sóknaráætlana og tengja þær við byggðaáætlun sem og að skilgreina hlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga er varða svæðisbundna áætlanagerð.

Markmið frumvarpsins er að efla byggðaþróun á landinu öllu. Einnig er mikilvægt markmið að auka samráð milli ráðuneyta á sviði byggðamála innan hvers landshluta og milli stjórnsýslustiga. Jafnframt að færa til sveitarstjórna aukna ábyrgð á sviði byggða- og samfélagsþróunar. Með því næst betri nýting á fjármunum og ákvarðanataka er færð nær vettvangi. Gert er ráð fyrir því að svæðisbundnar þróunaráætlanir séu á ábyrgð heimamanna. Þær eiga að fela í sér svæðisbundnar útfærslur á áætlunum ríkisins, svo sem byggðaáætlun, menntastefnu ríkisins og landsskipulagsáætlun, svo eitthvað sé nefnt. Hver landshluti gerir síðan samning við ráðuneyti um fjárframlög sem heimamenn ráðstafa til framkvæmdar áætluninni.

Staðbundin stjórnvöld hafa meiri þekkingu á aðstæðum og viðhorfum á hverjum stað og eru í betri aðstöðu til að virkja heimafólk til þátttöku. Þátttaka heimamanna í stefnumótun, áætlanagerð og verkefnastjórnun er grundvallaratriði til að ná betri árangri. Tilgangur frumvarpsins er að skapa fyrirkomulag sem hvetur til þátttöku heimamanna og samvinnu þeirra sem gagnast svæðinu í heild. Stefnumótun og áætlanagerð sem unnin er í virku samráði breiðs hóps heimamanna er forsenda fyrir fjárframlögum frá ríkinu. Sóknaráætlanir þurfa að taka mið af stefnumótun stjórnvalda og leitast við að efla samkeppnishæfni landsins í heild sinni.

Um byggðaáætlun gilda nú ákvæði 7. gr. laga um Byggðastofnun, nr. 106/1999. Um landshlutasamtök sveitarfélaga gilda ákvæði 97. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Hins vegar gilda engin lagaákvæði um sóknaráætlanir, stýrihóp Stjórnarráðsins og samráðsvettvang landshluta. Með frumvarpinu verður breyting á því og einnig verða ákvæði um byggðaáætlun færð úr lögum um Byggðastofnun í lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Þannig verður til heildstæður lagarammi utan um þessa áætlanagerð.

Virðulegur forseti. Með frumvarpinu munu meginmarkmið byggðaáætlunar fá aukið vægi innan Stjórnarráðsins þar sem öll ráðuneyti vinna saman að því að bæta stöðu landsins í samvinnu við sveitarfélögin. Með því að lögfesta stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál er ætlunin að ná markmiðinu að efla samhæfingu innan Stjórnarráðsins í málefnum sem snúa að byggðamálum og tryggja virkt samráð milli sveitarstjórnarstigsins í málefnum um byggðamál.

Frumvarpið mælir fyrir um að byggðaáætlun verði til sjö ára og hún unnin í umboði ráðherra af Byggðastofnun í samvinnu við stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál. Þar að auki er mælt fyrir um að haft skuli samráð við ráðuneyti, sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga og aðra eftir þörfum við gerð byggðaáætlunar. Með því mun meginmarkmið byggðaáætlunar fá aukið vægi innan Stjórnarráðsins með samvinnu allra ráðuneyta og samstarfi þeirra við sveitarfélögin.

Með breytingum á lögum um Byggðastofnun, nr. 106/1999, verður hlutverk Byggðastofnunar eftir sem áður að efla byggð og atvinnulíf. Í frumvarpinu er lagt til að hlutverk Byggðastofnunar verði að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu. Jafnframt gerir frumvarpið ráð fyrir að beinar aðgerðir samkvæmt 2. og 3. mgr. einskorðist við samþykkt styrksvæði á gildandi byggðakorti af Íslandi sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur samþykkt fyrir tiltekið tímabil.

Frumvarpið var samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu af starfsmönnum þess, en að auki komu starfsmenn forsætisráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnunar að samningu þess. Þá var frumvarpið til umræðu á þremur fundum stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál, en þar situr fulltrúi landshlutasamtaka sveitarfélaga sem áheyrnarfulltrúi, auk þess sem það var kynnt og rætt á samráðsfundi stýrihópsins með formönnum og framkvæmdastjórum landshlutasamtaka sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og ástæðum fyrir framlagningu þess og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.