144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

byggðaáætlun og sóknaráætlanir.

693. mál
[16:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp um byggðaáætlun og sóknaráætlanir skuli vera komið inn í þingið. Það skapar ramma utan um hvernig farið verður með slíkar áætlanir. Það er ánægjulegt að í frumvarpinu er staðfest formlega að sóknaráætlanir verði festar í sessi. Það er í sjálfu sér mjög merkilegt að rifja það upp að þegar núverandi hæstv. ríkisstjórn tók við sumarið 2013 þá henti hún sóknaráætluninni, úrræði sem hefur í raunveruleikanum reynst gríðarlega vel og fær mikið lofsyrði í úttekt hjá ráðgjafarfyrirtækinu Evris, þar sem segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Það er mat úttektaraðila að í heildina hafi verkefnið Sóknaráætlanir landshluta, á því tveggja ára tímabili sem til skoðunar var í þessari úttekt, tekist vel. Verkefnið er þróunarverkefni og þessi tvö ár voru mikilvægur tími til að prófa ný vinnubrögð og draga af þeim lærdóm áður en næstu skref verða stigin.“

Síðan er vitnað í annan stað skýrslunnar. Nú les ég áfram upp úr greinargerðinni með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Það er mat úttektaraðila að samningar um framkvæmd sóknaráætlana hafi almennt verið mikið framfaraspor og vel til þess fallnir að færa aukin völd og ábyrgð til einstakra landshluta.“

Þetta byggir líka á því að hafa aukið samráð eins og hæstv. ráðherra nefndi, að skapa fyrirkomulag sem virkjar heimamenn. Sem betur fer lifði þetta verkefni. Þetta var eitt af því sem settir voru fjármunir í og menn ætluðu að setja meira fjármagn í þessa þætti en hafði verið gert áður. Það hefur að vísu ekki skilað sér í samræmi við þær áætlanir sem voru uppi. Eins og kom fram hjá ræðumanni á undan mér, hv. þm. Kristjáni L. Möller, þá benti hann á að í fjárlögum voru menn að glíma við 15 milljónir, fjármagnið hækkaði svo upp í 100. Í þessum hluta er talað um sóknaráætlanir landshluta upp á 102 milljónir, en áætlanir gerðu ráð fyrir um 400 milljónum í þennan lið á meðan við í fyrri ríkisstjórn vorum að vinna með þetta.

Það er jákvætt að lögbinda þetta. Það er mikilvægt að styrkja sveitarstjórnarstigið. Það sem þarf að skoða hins vegar og ég ætla að biðja hæstv. ráðherra aðeins að velta upp með mér er að við verðum áfram með sóknaráætlanir undir landshlutasamtökum. Landshlutasamtökin hafa ekki lagalega stöðu í sveitarstjórnarlögum eða í landslögum. Það er talað um byggðasamlög, en lagaleg staða landshlutasamtaka er mjög óljós. Yfir á þetta stig eru að færast fleiri og fleiri verkefni. Við höfum verið að færa þangað almennar samgöngur, þarna eru sóknaráætlanirnar. Meðan menn voru að þróa þessar sóknaráætlanir voru þeir meðvitaðir um þetta. Við þann undirbúning var notast við svokallað þjóðfundaform. Það var leitað til mjög margra til að móta stefnuna fyrir viðkomandi fjórðunga. En þegar þetta fer að verða viðvarandi og vinnast áfram, þótt það sé nú unnið með nýjum aðila sem er stýrihópur Stjórnarráðsins, þá er ástæða til að hafa áhyggjur af þeim lýðræðislega halla sem er í kringum landshlutasamtökin og í hverju ábyrgðin felist á þeim fjármunum sem þar eru nýttir og þeim ákvörðunum sem þar eru teknar. Ég vek athygli hæstv. ráðherra á þessu og bið um að þetta verði tekið fyrir sérstaklega.

Það er líka ástæða til þess að minna á að mjög mikilvægt er að við færum frekari verkefni til sveitarfélaganna. Það hefur ítrekað verið bent á það að sveitarstjórnarstigið sé til þess að gera með litla hlutdeild í stjórnsýslunni samanborið við aðrar Norðurlandaþjóðir. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli að þjónustan sé sem næst íbúunum og sveitarstjórnarmenn hafi sem mest um þjónustuna að segja. En á sama tíma má segja að áhættuþátturinn varðandi það séu fámennu sveitarfélögin. Það er spurningin hvort við verðum ekki að fara að horfast í augu við að það verði að sameina sveitarfélög miklu víðar og fækka þeim. Þetta hefur verið gert í gegnum verkefni eins og málefni fatlaðs fólks. Þá var fært út miðað við að á lágmarkssvæði væru um 8.000 íbúar, ef ég man rétt, með einhverjum undanþágum. Síðan er verið að vinna með heilbrigðisumdæmi, en það eru ekki endilega sömu svæði. Þetta væri miklu auðveldara ef við værum búin að lögfesta stærri sveitarfélög líkt og öll löndin í kringum okkur hafa gert, þar með talið Grænland, ég tala nú ekki um það sem breyttist í Danmörku fyrir nokkrum árum.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að, fyrir utan lýðræðishallann á landshlutasamtökum, er lagaleg staða landshlutasamtakanna sem er í raunveruleikanum þriðja stjórnsýslustigið en hefur enga stöðu sem slíkt. Ég veit þetta var rætt nýlega á aðalfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga en ég náði ekki að vera við þá umræðu, en hlustaði á hluta af henni í beinni útsendingu. Það er mikilvægt að skerpa stöðu landshlutasamtakanna í íslenskri löggjöf.

Af því ég gagnrýndi að upphæðir hefðu lækkað þá langar mig að spyrja um kostnaðinn í fylgiskjali frá fjármálaráðuneytinu. Hvernig hefur þessi kostnaður þróast á undanförnum árum? Þegar við förum í gegnum tímabil síðustu ríkisstjórnar þá sýnist mér að tölurnar hafi verið hærri. Ég bið hæstv. ráðherra að upplýsa mig um þær tölur og þau áform sem voru uppi. Það voru settir inn viðbótarpeningar í gegnum græna hagkerfið og sóknaráætlanir sem áttu að fara til sveitarfélaganna. Að sama skapi hafa komið tillögur, m.a. frá Samfylkingunni, um að hluti af veiðigjöldum færi til sveitarfélaganna. Ég veit að sumir flokkar hafa stutt það. Það mundi líka hjálpa landsbyggðinni og hægt væri að auka það fjármagn sem fer meðal annars til atvinnuráðgjafar, til byggðamála almennt og í sóknaráætlanir.

Að öðru leyti treysti ég á að þetta frumvarp fái vandaða umfjöllun í hv. atvinnuveganefnd. Það er mikilvægt að koma þessu í form, festa formið til lengri tíma og búa því umgjörð þannig að við losnum við pólitískar fyrirgreiðslur eða geðþóttaákvarðanir og reynum að koma á einhverjum langtímasjónarmiðum með aukinni þátttöku íbúanna, en þá þurfum við líka að tryggja það því að ef menn skipa allt í gegnum fulltrúalýðræðið og meirihlutalýðræðið þá vill það verða þannig að meiri hluti sveitarfélaga er undir stjórn stjórnarflokkanna og ef þeir kjósa eingöngu sína aðila þá skilja þeir 50% landsmanna eftir varðandi ákvarðanatöku.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í þessari fyrstu lotu. Ég ætlaði í raun fyrst að fara bara beint í andsvör við hæstv. ráðherra en ákvað að fara svo í stutta ræðu.