144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

byggðaáætlun og sóknaráætlanir.

693. mál
[16:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðu hv. þingmanna sem tóku þátt í henni. Ég get ekki betur heyrt en fulltrúar þeirra flokka sem tóku þátt í umræðunni séu sammála því meginmarkmiði sem felst í þessu, að lögfesta ákveðið fyrirkomulag og festa þannig í sessi það verklag sem við höfum nýtt við annars vegar sóknaráætlun og hins vegar byggðaáætlanir, sem er auðvitað merkilegt að við skulum ekki vera búin að finna lögformlega stöðu fyrr, og hvernig við samþættum þær áætlanir ríkisins og síðan samstarfið við heimamenn í hverjum landshluta.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Þórunni Egilsdóttur að þegar verkefnið lagði af stað voru menn skeptískir á það úti um land en hafa síðan lært að með því að vinna saman að verkefnum geta menn haft meiri áhrif. Það er mjög mikilvægt að heimamenn hafi áhrif á byggðaþróun í samfélagi sínu.

Það var ákveðið frumkvæði sem landshlutinn Austurland tók sér á hendur við að stofna Austurbrú og hafa margir aðrir landshlutar fylgt í kjölfarið, í raun til að geta tekið við fleiri verkefnum inn á þennan vettvang landshlutanna. Þess vegna skiptir máli af hálfu ríkisins að alveg skýrt sé hvernig ríkið nálgast þessar byggðaáætlanir og sóknaráætlanir. Það er meginmarkmið frumvarpsins í sjálfu sér.

Það er einnig rétt sem kom fram hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að það er ákveðin lýðræðishalli í landshlutasamtökum þegar þeir eru fyrst og fremst skipaðir meiri hluta úr hverri sveitarstjórn. Það er verkefni sem hver landshluti þarf að taka svolítið upp hjá sér, hvernig landshlutasamtök og stjórnir og ráð þeirra eru skipuð. En það var líka mikilvægt að okkar mati að skerpa stöðu þeirra úr því að þeir hafa þennan vettvang og hafa þetta verkefni í dag.

Ég er að auki sammála hv. þm. Guðbjarti Hannessyni í því að mjög skynsamlegt væri að menn skilgreindu ákveðin svæði. Við höfum í mismunandi lögum á þinginu skilgreint mismunandi fjölda þjónustusvæða, heilbrigðissvæði, dýralæknissvæði, vaktsvæði og síðast sýslumannsembætti og lögregluembætti. Það væri miklu skynsamlegra að festa í sessi að það væru alltaf sömu svæðin sem við værum að fjalla um, þannig að hægt væri að byggja upp þjónustu hins opinbera á öllum þeim svæðum og þá hugsanlega hægt að fullnægja þeirri eðlilegu kröfu íbúa um land allt að þeir njóti sömu grunnþjónustu af hálfu ríkisins, enda greiða menn sömu skattprósentu hvar sem þeir búa. Það er verkefni sem við þurfum að taka til okkar og velta fyrir okkur hvernig við getum gert betur í framtíðinni.

Hv. þingmaður spurði einnig hvernig fjármögnun yrði háttað og aðrir þingmenn komu aðeins inn á það. Auðvitað er ekkert fjallað um það hér, það er fjallað um það í fjárlögum. Hv. þingmaður spurði hvort til greina kæmi að hluti af veiðigjöldum rynni inn til sóknaráætlana eða þessa verkefnis. Það er reyndar skoðun mín og hefur verið lengi og í stefnu Framsóknarflokksins að það sé skynsamlegt og í því frumvarpi sem unnið hefur verið að en er ekki komið inn í þing enn, um stjórn fiskveiða sem er heildarfiskveiðistjórnun þar sem veiðigjöldin eru einnig, var áformað, eins og fram hefur komið, að hluti veiðigjalda rynni þarna inn.

Hv. þingmaður spurði líka um þróun kostnaðar. Eftir því sem ég best veit hafa þær tölur í sjálfu sér lítið breyst hvað varðar menningarsamninga, vaxtasamninga, hefur þó farið heldur vaxandi eftir fjölda samninga sem hafa verið gerðir, frá því í upphafi hefur þetta vaxið nokkuð, enda voru fyrst og fremst gerðir samningar við einstök landshlutasamtök fyrst en nú er búið að gera samninga við öll landshlutasamtökin.

Á síðasta ári jók ríkisstjórnin með samþykkt í fjárlögum þingmanna að auka fjármuni til menningartengdra ferðaþjónustustyrkja úr 35 milljónum í 45, ef ég man rétt.

Síðan er það sem hv. þingmaður var væntanlega að kalla eftir, að fyrri ríkisstjórn hafði sett 400 milljónir á síðasta kosningaári sínu eða síðasta ári fyrir kosningar í sóknaráætlanir og boðað að sú upphæð mundi tvöfaldast og síðan þrefaldast. Þetta var auðvitað ekkert annað en kosningavíxill, enda vitum við að þegar við komum að stjórnartaumunum stefndi í verulegan halla á ríkissjóði og urðum við að stroka burt slíkar áætlanir, því að fyrst og fremst verðum við að hafa efni á því sem við erum að gera.

Það er hins vegar mitt mat og margra annarra að þeir fjármunir sem við setjum í sóknaráætlanir í dag, rúmar 100 milljónir, séu of lítið af peningum og við þurfum að setja meira. Það verður unnið að því. Ég heyri ekki annað, alla vega hjá hluta þingmanna, en að vilji sé til þess að taka þátt í því starfi og hlakka til að eiga samstarf við þá þingmenn um það.

Að öðru leyti þakka ég fyrir umræðuna og veit að hv. atvinnuveganefnd tekur þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar. Ég vonast auðvitað til að fá afgreiðslu á því sem fyrst, en fyrst og fremst eftir að nefndin hefur lokið störfum sínum.