144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

292. mál
[16:26]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Þingmálið sem ég mæli hér fyrir skýrir sig sjálft enda er það sjálfsagt og fjallar um að afnumin sé býsna sérkennileg undanþága sem mjólkuriðnaðurinn hefur haft frá samkeppnislögum frá því fyrir um áratug eða svo. Þá kom hér inn á vorþingið um þetta leyti, nýframlagt, þurfti að taka inn með afbrigðum og var afgreitt í miklum flýti seint á því þingi, sérstök undanþága fyrir þessa atvinnugrein frá ákvæðum samkeppnislaga. Samkeppnislög eiga jú bara að tryggja frjálsa samkeppni í atvinnurekstri sem er eðlilegt og heilbrigt umhverfi fyrir hvaða atvinnugrein sem er, mjólkuriðnaðinn eins og aðra.

Þá tryggðu núverandi stjórnarflokkar, með liðsstyrk eins stjórnarandstöðuflokks, iðnaðinn um undanþágu frá þessu sem við flutningsmenn málsins, sem komum úr þremur stjórnmálaflokkum hér í þinginu, 16 þingmenn úr Bjartri framtíð, Samfylkingunni og Pírötum — við flytjum þetta mál einfaldlega um það að sú undanþága verði felld úr gildi, að mjólkuriðnaðurinn falli einfaldlega undir samkeppnislög eins og aðrar atvinnugreinar á Íslandi, að neytendur njóti verndar frá Samkeppniseftirlitinu fyrir ólögmætu samráði fyrir markaðsmisnotkun hvers konar og einokunartilburðum á þessum markaði eins og á öðrum mörkuðum.

Það voru mistök á sinni tíð að veita þessa undanþágu. Við höfum nú síðast í vetur fylgst með mikilli umfjöllun um það hvernig eitt fyrirtæki hefur misnotað markaðsráðandi stöðu sína til að kæfa í fæðingu samkeppni, til að brjóta á bak aftur sprota með ýmsum ráðstöfunum. Það er einfaldlega óheilbrigt umhverfi, bæði fyrir framleiðendur í þessari atvinnugrein og fyrir neytendur. Frjáls samkeppni manna á meðal og fyrirtækja er það sem laðar hið besta fram í atvinnustarfsemi og er helst til hagsbóta fyrir neytendur.

Við búum sem betur fer svo vel að eiga mörg sóknarfæri í mjólkuriðnaðinum, sérstaklega ef við berum gæfu til að nýta þau tækifæri sem eru á Evrópumarkaði í þeim efnum, og við hefðum góðan aðgang að ef við værum orðin aðilar að Evrópusambandinu. Meðan svo er ekki er mikilvægt að við náum að ljúka samningum við Evrópusambandið og tryggja að Íslendingar hafi aðgang að þeim miklu útflutningstækifærum sem iðnaðurinn þar á. Sömuleiðis höfum við tækifæri til þess að endurskipuleggja greinina þegar framleiðslan og eftirspurnin er orðin meiri en kvótarnir sem eru í greininni og vinna okkur út úr því óheillavænlega kvótafyrirkomulagi sem þar hefur verið.

Margvísleg önnur góð sóknarfæri eigum við og eitt af þeim er að efla samkeppni í mjólkuriðnaðinum og þess vegna er þetta einfalda mál flutt. Sams konar tillaga var flutt sem breytingartillaga hér á þingi árið 2011. Hún var því miður felld af þingmönnum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og eins flokks þar að auki, en við vonumst til þess, flutningsmenn, að þetta fái samþykki þingsins nú.