144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

upplýsingalög.

272. mál
[16:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, það var málefnalegt eins og við mátti búast af hv. þingmanni og ég vona að umræðan verði á þeim stað.

Aðeins varðandi forgangsröðunina — ástæðan fyrir því að ég nefni forgangsröðunina er sú að ég bara skoðaði það, ég skoðaði það eftir stofnunum, það var ekki til staðar þegar ég byrjaði að vinna í hv. fjárlaganefnd, og fór í gegnum ríkisreikninginn, og þess vegna er ég að segja frá þessu. Þetta er ekki mat mitt heldur er ég búinn að skoða nýju ríkisútgjöldin og sömuleiðis hvaða stofnanir hafa hækkað mest; sumar hafa hækkað gríðarlega mikið þegar menn héldu að þær væru að spara, þess vegna fullyrði ég þetta.

Varðandi það að opinberar stofnanir fari almennt vel með fé, ég vona að svo sé, en allar úttektir sýna að það vantar mikið upp á. Við erum búin að skoða þetta, eins og ég nefndi hér áðan, og til eru margar skýrslur þegar kemur að innkaupum opinberra stofnana. Menn eru ekki að nýta hagkvæmustu leiðirnar, langur vegur frá. Þannig er það bara. Annaðhvort er það þannig að þetta er allt rugl sem kemur frá Ríkisendurskoðun, nýju nefndinni, Ríkiskaupum o.s.frv. Menn hafa talað um það í gríðarlegum fjárhæðum sem geti sparast ef menn mundu nýta lögin um opinber innkaup eins og á að gera það, og það er reynsla annarra þjóða. Þannig að það vantar mikið upp á þetta. Þetta er einhver sparnaður sem maður mundi ætla að auðvelt verði að sameinast um.

Svo kemur að spurningu hv. þingmanns sem er bara mjög góð: Af hverju 150.000 kr.? Það er mjög góð spurning en þegar stórt er spurt er lítið um svör. Þetta gætu auðvitað verið aðrar tölur. Ef tölur væru lægri kynni einhver að segja að það væri þá of mikið magn eða að þá væru menn að fara í of lága tölu; við mundum kannski missa sjónar á stóru málunum og aðalatriðum. Þetta er ekkert greypt í stein, þetta er bara ein tala og má örugglega skoða hana.