144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

stofnun Landsiðaráðs.

483. mál
[17:07]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um stofnun Landsiðaráðs sem ég flyt ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Róberti Marshall, Oddnýju G. Harðardóttur og Birgittu Jónsdóttur.

Tillagan snýst um að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra að skipa starfshóp með fulltrúum allra stjórnmálaflokka á þingi til að undirbúa lagasetningu um hlutverk, skipan og starfssvið siðaráðs á landsvísu, Landsiðaráðs. Starfshópurinn skili tillögum sínum til ráðherra eigi síðar en 1. október 2015 og sú dagsetning er að sjálfsögðu undiropin breytingum hljóti þetta mál brautargengi og leggi ráðherra frumvarp til laga um Landsiðaráð fram á 145. löggjafarþingi.

Hugsunin á bak við þetta mál er að það verði skoðað í fullri alvöru af fulltrúum þingflokkanna hvort ekki sé ástæða til að samræma starf, sem raunar er víða unnið í samfélaginu um þessar mundir, um hvernig við getum gætt betur að siðferðilegum viðmiðum við ákvarðanir okkar í daglegu lífi og starfi. Við þekkjum auðvitað slíkar nefndir, sérstaklega á sviði heilbrigðisvísinda. Við eigum í samfélaginu vísindasiðanefnd um rannsóknir á sviði heilbrigðisvísinda, enda koma þar mjög oft upp siðferðileg álitamál sem lúta til að mynda að stofnfrumurannsóknum, öðrum rannsóknum sem ganga hugsanlega gegn persónuvernd einstaklinga og annað slíkt. Síðan eru spítalarnir með siðaráð og siðanefndir. Háskólarnir eru með siðaráð og siðanefndir. Við erum með Siðfræðistofnun Háskóla Íslands sem er einhvers konar rannsóknarstofnun en veitir líka ráðgjöf og miðlar upplýsingum um siðfræði og siðferði.

Hugsunin á bak við þessa tillögu er dregin úr 8. bindi rannsóknarnefndar Alþingis, um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburðir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Af þessu má sjá að vandinn er víðtækur, djúpstæður og kerfislægur. Skýrsla vinnuhópsins um siðferði og starfshætti sýnir í hnotskurn að brýn þörf er fyrir siðvæðingu á fjölmörgum sviðum í íslensku samfélagi.“

Síðan segir:

„Frá siðferðilegu sjónarmiði er til lengri tíma litið brýnast að treysta lýðræðislega innviði samfélagsins og styrkja stjórnkerfið; bæta þarf viðskiptasiðferði, stjórnsiði og vinnulag, efla fagmennsku og siðferðisvitund. Styrkja þarf skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal borgaranna um sameiginleg hagsmunamál sín. Leggja þarf áherslu á réttnefnda samfélagsábyrgð og hamla gegn sérhagsmunaöflum og þröngri einstaklingshyggju. Siðvæðing íslensks samfélags ætti einkum að beinast að því að styrkja þessa þætti og það er langtímaverkefni sem krefst framlags frá fólki á öllum sviðum samfélagsins.“

Herra forseti. Þetta er í raun sú tillaga sem liggur undir. Hún er ekki séríslensk og byggir á fyrirmyndum frá Danmörku annars vegar og Þýskalandi hins vegar, þ.e. að stofnað sé slíkt óháð ráð sem hafi bæði það hlutverk að sýna frumkvæði í málum sem eru til umræðu í samfélaginu og kalla á að tekin sé afstaða til siðferðilegra álitamála, en getur hins vegar líka verið stjórnvöldum til ráðgjafar þannig að hægt sé að leita til slíks ráðs um ráðgjöf um þau siðferðilegu álitamál sem koma upp. Það er svo að þær stofnanir sem við eigum fyrir, sem vinna gott starf, hver á sínu sviði, fást allar við afmörkuð svið, eins og ég kom að áðan.

Mig langar aðeins að nota tækifærið til að greina frá því að í Danmörku er siðaráð, Det Etiske Råd eins og það heitir á dönsku, með leyfi forseta. Það var stofnað árið 1987. Hlutverk þess er að vera danska þinginu og stofnunum hins opinbera til ráðgjafar og líka til að skapa umræðuvettvang úti í samfélaginu, sérstaklega um málefni líf- og erfðatækni. Núgildandi lög um siðaráð Danmerkur eru Lov om Det Etiske Råd frá 9. júní 2009.

Það voru fæðingar fyrstu glasabarnanna í Danmörku sem urðu til þess að ákveðið var að stofna þetta ráð eftir að umræður spruttu upp í samfélaginu um hvað rétt væri að gera. Ráðið starfar í mjög nánum tengslum við danska þingið þar sem það fundar að minnsta kosti einu sinni á ári með sérstakri siðaráðsnefnd danska þingsins en auk þess eru haldnir fundir eftir þörfum.

Meðlimir danska siðaráðsins eru 17 og af þeim skipar siðaráðsnefnd þingsins níu en ráðherrar skipa átta. Þeir eru skipaðir til þriggja ára í senn og geta ekki setið lengur en sex ár.

Það er áhugavert að skoða hvað þetta ráð hefur verið að gera. Það hefur til að mynda talsvert mikið fengist við málefni persónuverndar. Það er eitt af því sem þarf að skoða, því að við erum auðvitað með sérstaka stofnun um þau lög. Það hefur fengist við lög um barnavernd, um stofnfrumurannsóknir, um réttindi fatlaðra í samfélaginu. Það hefur fjallað um staðgöngumæðrun og gjöf á eggfrumum og skoðað málefni líknandi meðferðar og líknardráps.

Hitt fordæmið sem ég vil nefna er þýska siðaráðið sem er skipað með mjög sambærilegum hætti, annars vegar eru ráðherraskipaðir fulltrúar og hins vegar fulltrúar skipaðir af sambandsþinginu. Því er annars vegar ætlað að vera samskiptavettvangur um siðfræðileg málefni og hins vegar ráðgjafi fyrir stjórnvöld og almenning. Megináherslan í störfum þýska siðaráðsins er á siðfræðileg, viðskiptaleg, læknisfræðileg og réttarfarsleg álitamál sem tengjast sérstaklega beitingu líf- og læknavísinda. Enn fremur getur ráðið tekið upp önnur mál sem tengjast því á einhvern hátt, en líka sjálfstæð málefni.

Í báðum þessum tilfellum er um að ræða sjálfstæðan og óháðan opinberan vettvang skipaðan kunnáttufólki á ýmsum sérsviðum siðfræði, sem er ætlað að vera til ráðgjafar en líka að eiga frumkvæði að umræðum.

Meðal þess sem þýska siðaráðið hefur verið að ræða og skoða er til að mynda aðgengi að lyfjum í þróunarlöndum, hver sé siðferðileg ábyrgð Vesturlanda í þeim efnum. Enn fremur hefur það fjallað um umskurð og hvaða siðferðilegu álitamál séu uppi í kringum hann, einnig erfðafræðileg málefni, ef ég tek þau málefni sem hafa verið uppi í ráðunum á síðustu árum. Líknardauði er líka til umræðu þarna og intersexfólk, sem hefur verið til umræðu í þinginu núna á allra síðustu dögum, er líka eitt af viðfangsefnum þýska siðaráðsins á síðustu árum.

Eins og hv. þingmenn heyra eru umræðuefnin mörg og hugsunin á bak við þessa tillögu er að við færum umræðuna meira á hinn opinbera vettvang, inn til þingsins. Kannski sprettur þetta líka af því að ég tel að þingið ætti fyrir löngu að hafa lokið vinnu við sínar eigin siðareglur. Ég held að mjög mikilvægt sé að þingið taki ákveðið frumkvæði í þeim efnum, bæði hvað varðar gerð eigin siðareglna en líka að efna til þeirrar umræðu sem við munum þurfa að taka á næstu dögum og missirum. Við höfum til að mynda hér inni frumvarp um staðgöngumæðrun sem þarf að ræðast nákvæmlega út frá þessum álitaefnum. Ég vona því að hv. þingmenn skoði þetta mál með opnum huga, sem flutt er af fulltrúum fjögurra flokka á þinginu, og nýti tækifærið til að efla opinbera umræðu um siðfræði og almenn málefni sem tengjast siðferðilegum álitamálum og setji þau mál í farveg sem við getum sameinast um að sé faglegur og umræðunni til framdráttar.

Að því sögðu legg ég til að þessi tillaga að lokinni 1. umr. fari til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.