144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

361. mál
[17:17]
Horfa

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Nú kemur til 1. umr. mikilvægt frumvarp sem við í þingflokki Framsóknarflokksins höfum lagt mikla áherslu á. Þetta er frumvarp um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli. Flutningsmenn eru ásamt mér allur þingflokkur Framsóknarflokksins.

Þetta frumvarp snýst í rauninni um að kjörnir verði fulltrúar allrar þjóðarinnar, en ekki sumra, til að taka ákvörðun um framtíð Reykjavíkurflugvallar, að umræðan um hvort Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera í Vatnsmýrinni eða ekki verði tekin á Alþingi en ekki í borgarstjórn Reykjavíkur og framtíðin verði ákveðin í þingsal.

Reykjavíkurflugvöllur er eitt mikilvægasta mannvirki þjóðarinnar. Ég held að flestir geti verið sammála um það, ég hef ekki heyrt neinn andmæla því, að lega flugvallarins heyrir undir þjóðarhagsmuni. Nú er málið þannig statt að Keflavíkurflugvöllur heyrir undir ríkið og ríkisstjórnina. Það er ekki á valdi sveitarfélaga eða einstaks sveitarfélags á Suðurnesjum að ákveða legu eða framtíð Keflavíkurflugvallar. Ég hef heldur ekki heyrt nokkurn mann hreyfa andmælum við þeirri staðreynd eða velta því upp hvort rétt sé að einstakt sveitarfélag hlutist til um framtíð flugvallarins.

Reykvíkingar eiga fulltrúa á Alþingi. Þeir munu að sjálfsögðu gæta að hagsmunum Reykvíkinga, en okkur þingmönnum er gert að gæta að hagsmunum allrar þjóðarinnar.

Án þess að fara mjög ítarlega í frumvarpið, sem hefur fengið þó nokkra umfjöllun í fjölmiðlum, vil ég þó segja eitt. Því var fleygt fram í umræðunni að skipulagsvaldið væri heilagt, eða allt að því heilagt eins og kannski fleiri eru farnir að segja núna. Ef menn rýna aðeins í þau lög og reglur sem gilda komast menn þó fljótt að því að skipulagsvaldið eða hin svokallaða skipulagsskylda er langt frá því að vera heilög. Það stendur í 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar: „Sveitarfélög skulu ráða málefnum sínum sjálf eftir því sem lög ákveða.“ Það er því á valdi löggjafans eða Alþingis að ákveða hvaða málaflokkar heyra undir sveitarfélögin í landinu og hvaða málaflokka ríkið fer með. Það er alltaf Alþingi sem ákveður en ekki sveitarfélögin út af fyrir sig. Þetta ákvæði á hins vegar að koma í veg fyrir að hlutast verði til með eitthvað sem er á borðum sveitarfélaganna. Það er eðlileg ráðstöfun. En ef Alþingi vill breyta, þá breytir Alþingi. Og Alþingi breytir reglulega.

Í frumvarpinu er bent á að ekki sé aðeins svona háttað til um Keflavíkurflugvöll heldur líka ýmsa þjóðgarða, sem takmarka verulega skipulagsvald sveitarfélaga. Náttúruverndarlögin kveða mjög á um að mótuð sé heildarstefna á margan hátt og ég veit til dæmis að sveitarfélagið í kringum Mývatn er mjög bundið af lögum. Samgönguáætlun er ákveðin af Alþingi og til dæmis fer Vegagerð ríkisins með allar stofnbrautir í Reykjavík, sveitarfélagið hefur ekki afskipti af því, og þannig er því háttað hringinn í kringum landið.

Við erum nú þegar að ræða hina svokölluðu kerfisáætlun varðandi raflínur. Þar hefur meira að segja verið lagt til að það yrði ekki einungis Alþingi sem færi með það vald hvernig haga eigi raflínum hringinn í kringum landið heldur Landsnet. Sumum finnst reyndar of langt gengið í þeim efnum og ég hef svo sem tekið undir þau sjónarmið.

Með því er ekki sagt að ekki eigi að virða það vald eða skyldu sem sveitarfélögunum er færð. Þess vegna er í frumvarpinu lögð mikil áhersla á að Reykjavíkurborg eigi fulltrúa við borðið, það sé mynduð nefnd sem Reykvíkingar, Alþingi og ráðherrar skipa í og að byggingarfulltrúinn í Reykjavík sjái um að veita framkvæmdaleyfi og annað. Það er eðlilegt. Allt samráð og öll samskipti við Reykjavíkurborg eiga að vera tryggð í þessu máli.

Ég vil líka vekja athygli á að ef menn eru sammála um að Reykjavíkurflugvöllur ásamt Keflavíkurflugvelli heyri undir þjóðarhagsmuni tel ég að nefndin, umhverfis- og samgöngunefnd, verði að skoða alvarlega hvort varaflugvellirnir okkar, bæði á Akureyri og á Egilsstöðum, eigi ekki að falla undir sama málaflokk eða sömu skilgreiningu, þjóðarhagsmunaskilgreininguna. Ég hef bent á að í Svíþjóð ákváðu Svíar að mörg samgöngumannvirki, vegir, brýr, jafnvel ferjur og flugvellir, yrðu sett undir þennan þjóðarhagsmunahatt og það væri alltaf þingsins, eða Riksdagens í Svíþjóð, að kveða á um hina stærstu þætti, þ.e. ef taka ætti upp flugvöll eða leggja niður ferjusiglingar eða eitthvað svoleiðis væri það ekki á valdi sveitarfélaganna heldur Riksdagens, sem er þjóðþing Svía, að taka þá ákvörðun. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli, Svíar hafa tekið 30 flugvelli, þar á meðal Bromma-flugvöllinn í Stokkhólmi, og þeir segja að valdið sé þingsins, að sjálfsögðu.

Ég vil minna á frumvarp sem fyrrverandi forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, lagði fram. Hún vildi að skipulagsvaldið yrði tekið af Reykjavíkurborg á hinum svokallaða Alþingisreit. Það mál fékk því miður ekki nægilega umfjöllun að mínu mati en ég held það hafi verið hárrétt af fyrrverandi forseta Alþingis (Gripið fram í: Heyr, heyr.) að gera tillögu um slíkt, vegna þess að þetta snýst ekki aðeins um þjóðarhagsmuni heldur öryggi. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir ríki að geta haft eitthvað um það að segja hvernig skipulagi er háttað í kringum þjóðþingið og það snýr líka að öryggi. Farið var í þá vegferð víða á hinum Norðurlöndunum eftir hryðjuverkaárásina í Noregi, sem varð svo einnig að hryðjuverkum og morðum í Útey, eins og flestir þekkja.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þetta frumvarp verði samþykkt. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við komum málefni Reykjavíkurflugvallar í þennan farveg. Málið hefur verið í miklum átakafarvegi. Mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur lýst því yfir í skoðanakönnun að hann vilji að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni. 73% Reykvíkinga hafa sagt að þeir vilji hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni. En fyrrverandi borgarstjóri og núverandi borgarfulltrúar komu fram og lýstu því yfir að skipulagsvaldið væri hjá Reykjavík og að landsmönnum kæmi þetta meira og minna ekkert við. Fullyrt var að einhverjir utan af landi hefðu tekið þátt í undirskriftasöfnuninni og því væri vart mark á henni takandi. Það er hnútur sem við verðum að leysa, virðulegi forseti. Við sjáum það núna með neyðarbrautina.

Ég tel að það hafi reyndar verið sett í mjög slæman farveg af Isavia þegar áhættumatshópurinn var leystur upp. Ég hef kallað eftir því varðandi þann hluta þessa stóra máls að fenginn verði erlendur aðili til að taka út og meta áhættumatið. Við verðum að vera 100% viss ef tekin verður ákvörðun um neyðarbrautina að ekki sé verið að skerða öryggi flugfarþega og hvað þá þeirra sjúklinga sem þurfa svo sannarlega á Reykjavíkurflugvelli að halda.

Mín von stendur til þess að innanríkisráðherra muni taka á því máli. Ég er viss um að hún mun gera það, ég veit hún er stuðningsmaður þess að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Ég er sannfærður um að hægt verði að koma í veg fyrir að neyðarbrautin fari.

Nú er staðan þannig að í aðal- og deiliskipulagi Reykjavíkurborgar eru ákvæði þess efnis að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera farinn árið 2022. Tíminn líður hratt og mun hraðar en fólk áttar sig á og fyrr en varir verður einfaldlega komið að þeim tímapunkti að leggja á flugvöllinn niður. Þess vegna er mjög mikilvægt að þetta frumvarp verði samþykkt fyrr en seinna.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Þetta er flókið mál, öll umræðan um Reykjavíkurflugvöll. Margir ráðherrar hafa gefið út yfirlýsingar og samkomulög verið gerð sem hafa svo ekki verið virt. Ég nefni sérstaklega samkomulag sem þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, gerði um uppbyggingu samgöngumiðstöðvar sem og fyrrverandi samgönguráðherra, Kristján L Möller, ef ég man rétt. Reykvíkingar, Reykjavíkurborg lýsti því yfir einhliða að hún ætlaði ekki að virða samkomulagið varðandi uppbyggingu samgöngumiðstöðvar en vísar svo ítrekað í þessi samkomulög þegar kemur að neyðarbrautinni, sem ég tel algjörlega ótækt. Það er algjörlega ótækt.

Virðulegi forseti. Í ljósi þjóðarhagsmuna, í ljósi þess að það er eðlilegt lýðræðisins vegna að fulltrúar allrar þjóðarinnar fái að taka ákvörðun um legu og framtíð Reykjavíkurflugvallar legg ég til að málinu verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar og verði svo gert að lögum frá Alþingi.