144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

361. mál
[17:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, 1. flutningsmanni þessa máls, til hamingju með að málið sé loksins tekið fyrir hér á þingi. Ég vil hvetja hann, sem formann umhverfis- og samgöngunefndar, til að taka málið á dagskrá þegar þessari umræðu er lokið. Ég vil segja að þetta er eitt af þeim málum sem ég er hvað stoltastur af að fá að vera meðflutningsmaður að hér á þessu löggjafarþingi og ég er líka stoltur af því að allur þingflokkur Framsóknarflokksins skuli vera meðflutningsmenn á þessu máli.

Það er nefnilega svo, svo við byrjum aðeins á pólitíkinni fyrst, áður en við förum í hina efnislegu umræðu, að það er einungis einn stjórnmálaflokkur í landinu sem er algerlega heill í því að vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni hér í Reykjavík og það er Framsóknarflokkurinn. Framsóknarflokkurinn er ekki með eina skoðun í Reykjavík og aðra skoðun úti á landi þegar kemur að þessu máli. Framsóknarflokkurinn er algerlega skýr með það að vilja hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni og það er samþykkt stefna flokksins. Það er ekki svo, eins og við höfum orðið vitni að hér í gegnum tíðina, og meðal annars nú á síðustu vikum, að stefna flokkanna hér í höfuðborginni er ein og svo eru landsbyggðarþingmenn af og til sendir hér upp í ræðustól til að berja sér á brjóst og segjast vilja hafa Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýrinni; á sama tíma og félagar þeirra eru í óða önn að vinna að því að flytja flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni og þrengja að honum á hverju einasta ári. Þetta vildi ég segja til að byrja með.

Ég tek undir með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, framsögumanni málsins, þegar hann segir að hann hafi mikla trú á því að hæstv. innanríkisráðherra Ólöf Nordal vilji ganga þannig frá málum að flugvöllurinn geti verið áfram í Vatnsmýrinni. Það kemur meðal annars fram í samgönguáætlun sem hæstv. ráðherra var að leggja fram. Ég vil hvetja hv. þm. Höskuld Þórhallsson til þess — verði ekki einhver lending komin í þau mál fyrir vorið hjá hæstv. innanríkisráðherra og hjá borgarstjórn Reykjavíkur, sem Samfylkingin, Vinstri grænir og Björt framtíð skipa, sem miðar að því að flugvöllurinn verði áfram um ókomna tíð í Vatnsmýrinni — að beita sér fyrir því að þetta mál verði afgreitt af umhverfis- og samgöngunefnd.

Það er svolítið skrýtið að fylgjast með pólitíkinni. Þegar við horfum upp á það að þeir flokkar sem nú skipa borgarstjórn Reykjavíkur tala sýknt og heilagt um sáttastjórnmál, umræðustjórnmál og annað því um líkt — og þar fer virðulegur borgarstjóri Reykvíkinga fremstur í flokki — en sú sátt og þau sáttastjórnmál sem borgarstjóri talar um, ásamt þeim flokkum sem styðja hann til setu, á bara við þegar það hentar málstað þessara einstaklinga og þessara flokka. Staðan er nefnilega sú að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni. Tugum undirskrifta var safnað til stuðnings því að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni. Öllu er þessu hent út um gluggann og allt er þetta hunsað vegna þess að sáttin og samræðustjórnmálin eiga bara við þegar það hentar fyrir fram gefnum málstað þessara flokka.

Það hefur verið rakið hér, af hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni og hv. þm. Haraldi Einarssyni, hversu mikilvægur flugvöllurinn er í tengslum við sjúkraflug, farþegaflutninga o.fl. Mikil umræða er nú um nýjan Landspítala. Menn tala um mikilvægi þess að reisa nýjan Landspítala vegna þess að veruleg þörf sá á að endurnýja húsakynni Landspítalans. Ég tek undir þetta. En ég vil þó segja að það er dálítið sérstakt að fylgjast með því að jafnvel þeir sömu sem tala um að reisa Landspítalann þar sem á að reisa hann vilja síðan flytja flugvöllinn burt frá honum. Það er ágætt að það komi hér fram að árlega koma um 600 sjúkraflug á Reykjavíkurflugvöll, 600 sjúkraflug á hverju einasta ári. Það eru hátt í tvö sjúkraflug á hverjum einasta degi þar sem lent er á Reykjavíkurflugvelli og er þá verið að flytja sjúklinga utan af landi sem þurfa að fara á Landspítalann sem er við hliðina á vellinum.

Mér finnst ótrúlegt að fylgjast með því þegar menn tala um, og jafnvel sömu einstaklingarnir, að hraða verði byggingu á nýjum Landspítala og alls ekki megi hnika staðsetningunni á honum á sama tíma og menn segja: Flugvöllurinn verður að víkja. 600 sjúkraflug á hverju einasta ári og ef við skoðum aksturstímann frá Keflavík til Reykjavíkur getur sá tími skipt sköpum þegar um er að ræða sjúkraflug.

Annað sem mig langar að koma inn á í þessari umræðu er það hvernig Reykjavíkurborg hefur komið að þessu. Rögnunefnd var sett af stað, hún átti að fara ofan í þessi mál. Reykjavíkurborg hunsar á sama tíma það algerlega og rýfur það samkomulag sem búið var að gera um að menn ætli að reyna að ná víðtækri sátt. Byggingarverktökum er hleypt af stað í framkvæmdir á sama tíma og þessi sáttanefnd er að störfum. Það er enn eitt merkið um einbeittan vilja til þess að loka flugvellinum þrátt fyrir að mikill meiri hluta landsmanna og mikill meiri hluta borgarbúa vilji hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni.

Virðulegur forseti. Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna. Það fylgja miklar skyldur höfuðborginni, skyldur gagnvart öllum landsmönnum. Hv. þm. Haraldur Einarsson minntist á það hér áðan að það gæti verið mögulegur kostur að flytja flugvöllinn að hluta út á Löngusker, að það fjármagn sem fengist fyrir lóðasölu í Vatnsmýrinni gæti greitt fyrir þann flugvöll. En það verður þá að vera algerlega skýrt og algerlega tryggt, þegar menn fara út í slíka útreikninga — og ég tek undir það að að sjálfsögðu eiga menn að skoða allar lausnir sem miða að því að flugvöllurinn verði áfram miðstöð fyrir innanlandsflugið — að ríkisvaldið beri ekki fjárhagslegan kostnað af þeirri uppbyggingu sem þar yrði á sama tíma og Reykjavíkurborg hefði tekjur af sölu lóðanna. Vissulega er það svo að ríkið á hluta af landinu sem þarna er undir en er Reykjavíkurborg tilbúin til að taka þátt í þeim kostnaði að byggja flugvöllinn upp á Lönguskerjum eða ætlar Reykjavíkurborg bara að ná í tekjurnar, tekjurnar af því að selja lóðirnar í Vatnsmýrinni, og ætla síðan ríkisvaldinu að byggja nýjan flugvöll og sjá um það sem þar er?

Menn hafa líka talað um að til greina komi að koma á laggirnar hraðlest eða annað því um líkt til Keflavíkur og það gæti orðið til þess að flugvöllurinn gæti verið þar. En er Reykjavíkurborg tilbúin til að taka þátt í þeirri fjárfestingu? Ég held að Reykjavíkurborg ætli ríkinu að taka þá fjárfestingu.

Ég vil hvetja hv. þm. Höskuld Þórhallsson, 1. flutningsmann þessa máls, til þess, verði ekki komin framtíðarlending í flugvallarmálin á næstu mánuðum, að afgreiða þetta mál hingað inn í þingið svo að það geti orðið að lögum áður en þing fer heim í vor. Það er þá sem það getur skýrst hverjir það raunverulega eru sem vilja að flugvöllurinn verði áfram hér í Vatnsmýrinni. Eins og þetta er lagt upp hérna — og það hefur talsvert verið gagnrýnt að þarna sé verið að skerða skipulagsvald sveitarfélaga eða annað því um líkt, með því að Reykjavíkurborg tæki yfir það land sem Reykjavíkurflugvöllur væri á — væri það algert neyðarúrræði en að sjálfsögðu væri heillavænlegast að Reykjavíkurborg og borgarstjórn Reykjavíkur sæi sóma sinn í því að reyna nú að hlusta á þann mikla meiri hluta höfuðborgarbúa, þann mikla meiri hluta landsmanna, sem vill hafa flugvöllinn þarna áfram, leiti lausna í málinu í staðinn fyrir að vinna alltaf gegn öllu sem þessum málum tengjast, vinna gegn því þegar Rögnunefndin er skipuð, setja framkvæmdir af stað og annað því um líkt. Takist það ekki fyrir vorið vil ég hvetja hv. þm. Höskuld Þórhallsson, formann hv. umhverfis- og samgöngunefndar, til að setja þetta mál á algeran forgangslista, við megum ekki láta eitt árið líða án þess að tekið sé á þessu máli.

Ég fór hér yfir það áðan að árlega færu um 600 sjúkraflug um völlinn og það er rakið ágætlega í greinargerð sem fylgir frumvarpinu. En það fara líka um 400 þús. farþegar um flugvöllinn á ári og hann gegnir mikilvægu hlutverki í ferðaþjónustu, í ýmiss konar þjónustu við landsbyggðina. Það eru mjög margir sem þurfa að sækja þjónustu til höfuðborgarinnar. Hér er meginþorri allra opinberra stofnana á landinu, hér er stjórnsýslan, hér eru ráðuneytin, hér situr Alþingi og það eru mjög margar sveitarstjórnir, fyrirtæki og aðrir sem þurfa að sækja hingað þjónustu. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þessa aðila vítt og breitt um landið að það sé mögulegt að útrétta allt samdægurs, þ.e. að fara til höfuðborgarinnar og sækja fundi, gegna ákveðnum erindum og halda síðan áfram heim á leið. Það er bara það sem ég sagði áðan. Það eru ekki bara réttindi sem fylgja því að vera höfuðborg, það eru líka ákveðnar skyldur. Menn geta ekki talað um það í einni setningunni að stærstur hluti af allri opinberri stjórnsýslu eigi að vera á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík, allar opinberar stofnanir og annað því um líkt, en síðan sé þeim sem búa á landsbyggðinni ekki gert mögulegt að sækja þá þjónustu sem nauðsynlegt er.

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að þeir stjórnmálaflokkar sem mynda meiri hluta í höfuðborg okkar allra landsmanna, Reykjavík, þ.e. Björt framtíð, Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sjái sóma sinn í því að fara þá leið að tryggja framtíðargrunn flugvallarins í Vatnsmýrinni, tryggja að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni um ókomna tíð þannig að þessi slagur geti í eitt skipti fyrir öll endað og menn geti farið að byggja upp miðað við það. Ég óttast þó að menn ætli sér áfram að þrengja að flugvellinum, um eitt gat á hverju einasta ári, og honum verði gert ókleift að reka sig þar sem hann er (ÞorS: Þú mátt ekki gleyma Pírötunum.) — og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson minnir mig á að gleyma ekki Pírötunum og að sjálfsögðu bæti ég þeim við ræðu mína.

Ég vil þó segja það, og ítreka enn og aftur við hv. umhverfis- og samgöngunefnd, að hún eigi að leggja mikla áherslu á að hraða þessu máli, reyna að afgreiða það sem hraðast inn í þingið aftur þannig að við getum orðið vitni að því hverjir vilja raunverulega að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni eða hvort menn ætli sér, margir hverjir, áfram að halda úti tveimur og jafnvel þremur stefnum í þessu máli. Það eru allt of margir stjórnmálamenn í þessu landi sem segja eitt þegar þeir fara á Ísafjörð, Akureyri og Egilsstaði og annað þegar þeir eru komnir hingað til höfuðborgarinnar.

Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og við eigum að sameinast um að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni um ókomna tíð. Hann er þjónusta fyrir landið allt, fyrir höfuðborgina. Ég segi eins og hv. þm. Páll Jóhann Pálsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði hér eitt sinn: Hvað dettur mönnum næst í hug? Ætla þeir kannski að fara að moka upp í höfnina líka og opna kaffihús á landfyllingunum? Að menn sem stýra höfuðborg skuli láta sér detta í hug að flytja flugvöllinn burt úr höfuðborginni og vilja ekki hafa tengingarnar allt í kringum landið — virðulegur forseti, það er ótrúlegt að fylgjast með þessu.