144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

efling ísaldarurriðans í Þingvallavatni.

42. mál
[18:44]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði á undan, með fullri virðingu fyrir framsögumanni málsins, hv. þm. Kristjáni L. Möller, hefði ég haft gaman af því að heyra hv. þm. Össur Skarphéðinsson tala um málið. Ég kem upp sem nefndarmaður í Þingvallanefnd og held að ég tali fyrir flesta í nefndinni þegar ég lýsi yfir ánægju með þetta mál. Núverandi nefnd og forverar mínir í þeim störfum hafa fjallað mikið um málefni urriðans og látið sig hann miklu varða. Á því hefur ekki orðið nein breyting og verður vonandi ekki breyting á því í framtíðinni, sama fyrir hvaða flokka fólk situr í Þingvallanefnd.

Það er alveg rétt sem fram hefur komið, ísaldarurriðinn í Þingvallavatni er órjúfanlegur hluti af því fjölbreytta og undursamlega lífríki sem er í Þingvallavatni. Það er líklega einstakt í heiminum. Þingvallanefnd hefur beitt sér sérstaklega fyrir vernd og eflingu ísaldarurriðans með margvíslegum hætti. Meðal annars eru fréttir núna að það hafi ekki mátt hefja veiði á urriðanum í Þingvallavatni fyrr en 20. apríl og eflaust hafa margir beðið spenntir eftir því en meðal annarra mótvægisaðgerða sem Þingvallanefnd hefur tekið upp er að fram til 1. júní er eingöngu heimilt að veiða hann til að sleppa honum. Eftir það er heimil hefðbundin veiði. Þetta byrjaði vorið 2014 og hefur gengið ágætlega.

Mig langar líka að nefna að frá árinu 1999 hafa verið gerðar miklar og merkar rannsóknir á urriðanum undir forustu Jóhannesar Sturlaugssonar fiskifræðings. Ef ég man rétt eyddum við 2 milljónum í rannsóknarstyrk til hans á síðasta ári. Það er gaman að geta þess að fyrr í þessum mánuði veitti Orkuveitan 14 milljónir til rannsókna á lífríki Þingvallavatns og af því fær Jóhannes yfir 8 milljónir til að rannsaka lífshætti urriðans í Þingvallavatni. Þetta er vel og styður vonandi við það sem flutningsmenn tillögunnar eru að kalla fram.

Einnig vil ég geta þess að núverandi ríkisstjórn og Alþingi hefur tekið nokkuð afdráttarlaust undir mikilvægi þessarar fisktegundar en 1. flutningsmaður lagði fyrir þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, hæstv. ráðherra Sigurð Inga Jóhannsson, fyrirspurn um hvort sú aðgerð að vernda hann hafi ekki skipt sköpum fyrir urriðann. Þetta er líklega óumdeilt.

Að lokum þakka ég flutningsmönnum fyrir þessa tillögu. Þetta er ágætt veganesti fyrir Þingvallanefnd og ég fullyrði að hún muni áfram beita sér í þessu máli sem hingað til.