144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn.

110. mál
[18:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessu frumvarpi. Þegar þetta kom til umræðu fannst mér einboðið að ég yrði það því að ég hef talað mjög fyrir auðlindum landsins, virðulegi forseti, eftir að ég settist á þing. Ég tala fyrir þingsályktun á eftir um það sama málefni. En þetta er akkúrat mál sem við verðum að fara í vegna þess að þarna eigum við réttindi sem ríki samkvæmt alþjóðasamningum. Framsögumaður, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, fór yfir það út á hvað þetta aðlæga belti gengur og hvert hlutverk þess er samkvæmt alþjóðasamningum. Ég vil því þakka þingmanninum fyrir að leggja þetta mál fram.

Málið komst í umræðuna í fyrra og þá var ákveðið að fara fram með frumvarp af þessu tagi til að gera þessa breytingu á lögunum nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Það er mikilvægt fyrir okkur að tryggja ríkið og okkur sem þjóð sem mest að alþjóðarétti, og hluti af því er að gera það með þessum hætti. Þarna er verið í raun að bæta við 12 sjómílum innan 200 mílna lögsögunnar sem við höfum þá meiri réttindi til varnar eins og framsögumaður fór yfir.

Ég er ánægð með að þetta mál skuli vera komið fram og ég vonast til þess að það fái góðan framgang í þinginu. Ef ekki þá hvet ég framsögumanninn, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, að flytja það strax hér næsta haust á nýju þingi og óska ég jafnframt eftir að vera meðflutningsmaður á því frumvarpi, því að þetta er eitthvað sem við verðum að huga að í sífellt breytilegum heimi, við tölum nú ekki um hvað það er sérstaklega mikilvægt til að verja okkur ágangi annarra þjóða í lögsöguna okkar.