144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

undirbúningur að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma.

355. mál
[19:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er komin fram tillaga til þingsályktunar um undirbúning að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma, sem ég tel mjög áhugaverða og verðskuldi það að fá góða og skjóta umfjöllun hér á Alþingi. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og aðrir flutningsmenn eru hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Oddný G. Harðardóttir.

Tilgangur tillögunnar er að Alþingi feli forsætisráðherra fyrir hönd framkvæmdarvaldsins að hefja undirbúning að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma fyrir Ísland. Það sem forsætisráðherra er þá falið að gera er að sjá til þess að vinna að því að þróuð verði hagfræðilíkön og spálíkön sem geri það kleift að hægt sé að vinna langtímaspár um líklega þjóðhagsframvindu og þar sem greindir verða mögulegir áhrifavaldar líklegrar þjóðhagsframvindu. Þar verði horft nokkuð langt fram í tímann, þ.e. talið ekki í árum heldur áratugum og hreinlega út alla öldina, og horft verði sérstaklega til líklegrar eða mögulegrar þróunar félagslegra, umhverfislegra eða lýðfræðilegra þátta sem væru hluti af forsendum í slíkri langtímaáætlanagerð. Metnir yrðu styrkleikar og veikleikar Íslands með tilliti til náttúru og umhverfisaðstæðna, landrýmis, landfræðilegrar legu og fólksfjölda, svo eitthvað sé nefnt.

Það sem mér finnst einna mikilvægast sem hér er nefnt í þingsályktunartillögunni er að sett verði fram dæmi um mögulega kynslóðareikninga þar sem hlutskipti núverandi kynslóða verði borið saman við hlutskipti þeirra sem munu landið byggja að nokkrum áratugum liðnum, þ.e. kynslóðirnar sem verða ráðandi og stýra þessu þjóðfélagi við lok þessarar aldar og jafnvel fyrr. Það eru auðvitað kynslóðir barnanna okkar sem hér erum í dag, barnabarna okkar og jafnvel barnabarnabarna. Ég held að það sé mjög mikilvægt í heimi þar sem gengið er oft mjög freklega á auðlindir landsins og jafnvel auðlindir heimsins að við lítum til þess hvaða áhrif það sem við gerum sem stýrum hér í dag kemur til með að hafa á komandi kynslóðir.

Hugmyndin með þingsályktunartillögunni er að forsætisráðherra skipi verkefnisstjórn til þess að undirbúa þetta verkefni og kalli saman á þann vettvang breiðan hóp fulltrúa vinnumarkaðarins, sveitarfélaga, mennta- og vísindasamfélagsins og almannasamtaka, sem og fulltrúa ríkisvaldsins, þ.e. ráðuneyta og stofnana. Hér er sem sagt lögð til mjög breið nálgun á það hvernig vinna eigi eða huga eigi að undirbúningi slíkra þjóðhagsáætlana.

Ég vildi koma hér upp til að lýsa því yfir að ég tek undir markmið þessarar þingsályktunartillögu eins og því er lýst í greinargerð, þ.e. að stuðlað verði að því að aflað verði haldbærra gagna um forsendur þjóðhagsáætlana til langs tíma fyrir íslenskt samfélag og unnið verði að gerð slíkra áætlana og þeim beitt við stefnumótun í samfélagsmálum.

Ég vil undirstrika að ég tel það mjög mikilvægt verkefni að við horfum fram til langs tíma og notum bestu tiltæku leiðir til þess að setja fram spár og undirbúa okkur og kynslóðirnar sem á eftir koma fyrir það sem koma skal.