144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

mjólkurfræði.

336. mál
[19:15]
Horfa

Flm. (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um eflingu náms í mjólkurfræði. Tillaga er lögð fram til að fela mennta- og menningarmálaráðherra að ráðast í endurskoðun á tilhögun náms í mjólkurfræði þannig að tryggt verði að íslenskir nemendur komist að í slíku námi.

Í greinargerð minni fer ég svolítið yfir ástæðu þess að ég legg þingsályktunartillöguna fram en með henni er gert ráð fyrir gagngerri endurskoðun á tilhögun náms í mjólkurfræði. Það kerfi sem stuðst er við nú er í raun úrelt og er ekki til þess fallið að tryggja sem besta þekkingu í faginu hér á landi. Við höfum fengið upplýsingar frá Mjólkurfræðingafélagi Íslands sem sendu frá sér ályktun, sem var í raun hunsuð innan iðnaðarins, þar sem þeir benda á mikinn fjölda ófaglærðra mjólkurfræðinga og telja að það geti haft áhrif á bæði gæði og framleiðsluöryggi í greininni. Það eru það fáir menntaðir sem vinna þetta starf að allt of mikið álag er á faglærðum einstaklingum sem vinna á vinnslustöðum. Þetta er of mikið til þess að þeir geti náð utan um það. Við verðum að drífa okkur í að koma því á að íslenskir nemar geti sótt þetta nám því að það eru svo fáir sem útskrifast næstu árin, og enginn fyrr en 2018 að mig minnir, og á meðan detta fleiri og fleiri út úr greininni, þ.e. komast á eftirlaun. Það er ekki hlutverk þingsins að ákvarða í hvaða nám einstaklingar kjósa að fara, við eigum ekki að vera að stýra því en ef við ætluðum að taka að okkur það hlutverk ættum við frekar að einbeita okkur að því hversu margir sækja í vinsælustu deildir í háskólum hérlendis.

Hér á landi hefur verið áhugi á þessu námi. Það hafa verið leiðir fyrir Íslendinga til að fara í það en það stoppaði þegar Danir breyttu lögum sínum um nám útlendinga þar í landi. Það er eftirspurn eftir náminu og því tel ég það hlutverk okkar að svara því kalli.

Í félagatali Mjólkurfræðingafélags Íslands kemur fram að yfir 70 manns vinna í mjólkuriðnaðinum, en mjólkurfræðingar vinna einnig mörg önnur störf. Þeir vinna í ísgerð, ölhúsum, þ.e. bruggverksmiðjum, þeir vinna í lyfjaiðnaði, kjötvinnslu og við heilbrigðiseftirlit. Þeir framleiða ekki aðeins jógúrt og mjólk.

Mjólkurfræðin er í rauninni grunnurinn að vinnslu okkar á góðum mjólkurvörum. Með því að hafa menntaða mjólkurfræðinga getum við unnið sem besta vöru. Við höfum ályktað á Alþingi að efla eigi landbúnaðarframleiðslu og efla kynningu utan landsteinanna o.s.frv. og ég tel að þetta haldist í hendur, við þurfum að vera með fólk með rétta menntun til að vera í framleiðslu mjólkurafurða, í rannsóknum og vöruþróun.

Það kemur fram á vefsíðu Mjólkurfræðingafélags Íslands að nám mjólkurfræðinga fari fram í Danmörku og það land hefur verið okkar helsti samstarfsaðili í því námi, þótt aðrir skólar séu til. Ég hef meðal annars heyrt af því að þetta nám bjóðist í Bretlandi. Fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins sér um skipulag á þessum málum, þ.e. að koma einstaklingum út í nám. Námið tekur þrjú ár og er á framhaldsskólastigi og endar með sveinsprófi. Hingað til það verið kennt í skólanum Kold College í Óðinsvéum. Námið samanstendur af bæði bóklegum og verklegum hlutum og er svokallað lotunám þar sem einstaklingar geta dvalið úti og tekið eitthvað hér heima og verið í samstarfi við mjólkurstöðvar á erlendri grundu en einnig hér heima. Það er svolítið misjafnt hvenær samningar nemenda taka gildi og það eru dæmi um að nemendur hafi þurft að bíða í töluverðan tíma eftir að hafa lokið bóknámsferlinu þar til loksins kemur að sveinsprófinu. Það er líka galli þar á en verknámið fer einmitt fram samhliða kennslu.

Fyrirtæki geta óskað eftir að annast verkhluta námsins og ef þau kjósa svo verður fyrirtæki að vera viðurkennt og eru sérstakar reglur þar um. Það verður að gæta þess að nemendur fái tilskilda þjálfun og öðlist ákveðna þekkingu með menntuninni og svo þarf fræðslunefndin að samþykkja þá nemendur sem sækja um námið. Samstarfið sem hefur verið á milli Íslands og Danmerkur um mjólkurfræðinám undanfarna áratugi byggist á samstarfi fræðslunefndarinnar, sem ég nefndi áðan, og Kold College í Óðinsvéum. Fyrir þremur árum var farið að innheimta skólagjöld í náminu. Þau beinast eingöngu að erlendum námsmönnum í Danmörku. Danmörk var með því að reyna að sporna við þeim mikla fjölda fólks frá Austur-Evrópu og annars staðar frá sem kom þangað og var taka yfir skólana, það var mikill fjöldi og þeir voru að reyna að stýra því betur. Ég held að við Íslendingar höfum svolítið sofnað á vaktinni við að halda því við að okkar fólk komist áfram í þennan skóla í gegnum þá samninga sem við vorum með. Þetta eru há gjöld og eru algerlega óháð uppihaldi og ferðalögum.

Það var einnig þannig að nemendur gátu sloppið við skólagjöldin ef þeir unnu hjá vinnslustöð erlendis en við höfum ekki komið neinum íslenskum nemendum að hjá dönsku mjólkursamlagi. Það hefur verið í gangi vinna við þetta í mjög langan tíma og eiginlega of langan tíma. Eins og ég sagði áðan eru margir að komast á eftirlaun og einnig er fólk sem bíður hérna heima upp á von og óvon, hefur unnið innan geirans í þeirri von um að einn daginn fái þeir símtalið um að þeir komist út. Flestir hafa gefið upp á bátinn að komast í námið þótt áhugi og metnaður sé til staðar.

Það hefur líka verið skoðað hvort íslenskur mjólkuriðnaður geti og vilji taka á sig þær hækkanir á námskostnaði sem liggja fyrir en meðan þeir sleppa með það að leggja meiri yfirvinnu á þá menntuðu mjólkurfræðinga sem fyrir eru er kannski skiljanlegt að þeir sjái ekki hag sinn í því að borga það. Svo þurfa þeir núna að bíða í kannski fjögur ár eftir að nemendur komist í námið. Við erum í þeirri stöðu að það hefur enginn Íslendingur farið á samning síðastliðin þrjú ár. Ég frétti nýverið af einum nýjum samningi, sem er við Mjólkursamsöluna um mjólkurfræðinám.

Ég tel mikilvægt að við látum kanna án tafar allar leiðir sem hægt er að fara til að leysa þennan vanda og auðvelda íslenskum nemendum að komast í námið og tryggja þannig að verkþekking á sviði mjólkurfræði verði áfram til fyrirmyndar hér á landi, því að það hefur hún verið. Það mætti kannski skoða að taka upp annars konar eða endurskoða samningana við Dani, nema íslenska ríkið nái á annan hátt að leysa úr þeim vanda sem hin háu námsgjöld eru.